Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, trónir á toppi tekjulista stjórnmálamanna í landsmálunum með 3,2 milljónir króna á mánuði í fyrra.

Þetta kemur fram í Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem komið er í allar helstu verslanir landsins og var dreift til áskrifenda í morgun.

Á eftir Guðna tekst Jóni Gunnarssyni – sem gegndi embætti dómsmálaráðherra allt síðasta ár og þar til nýlega – að rétt klóra sig fram úr Katrínu Jakobsdóttur með 2.569 þúsund krónur í meðallaun á síðasta ári, 30 þúsund krónum meira en forsætisráðherrann.

Að öðru óbreyttu ætti Katrín þó að slá honum við á þessu ári þar sem Guðrún Hafsteinsdóttir hefur nú tekið við dómsmálaráðuneytinu og Jón er nú aðeins á þingi.

Birgir Ármannsson forseti Alþingis vermir fjórða sæti listans og Bjarni Jónsson þingmaður tekur það fimmta með tæpa 2,1 milljón og er þar með launahærri en flestallir ráðherrar.

Þrátt fyrir að vera launahæsti þingmaðurinn án ráðherrastóls komast laun Bjarna þó ekki í hálfkvisti við kostnað ríkissjóðs vegna ferðalaga hans á vegum þingsins í fyrra, sem greint var frá í úttekt Viðskiptablaðsins fyrr á árinu.

Launahæstu stjórnmálamenn landsmálanna:

  1. Guðni Thorlacius Jóhannesson, forseti Íslands – 3,2 milljónir
  2. Jón Gunnarsson, fv. dómsmálaráðherra – 2,6 milljónir
  3. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra – 2,5 milljónir
  4. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis – 2,3 milljónir
  5. Bjarni Jónsson, alþingismaður – 2,1 milljón
  6. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra – 2,0 milljónir
  7. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra – 2,0 milljónir
  8. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra – 2,0 milljónir
  9. Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra – 2,0 milljónir
  10. Þórdís Kolbrún R Gylfadóttir, utanríkisráðherra – 2,0 milljónir

Tekjublað Frjálsrar verslunar er komið út. Finna má blaðið á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 2.749 kr. á mánuði