Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra kveðst sjá fulla ástæðu til að skoða framtíðareignarhald ríkisins á Isavia.
„Ég sé framtíð Isavia fyrir mér með svipuðum hætti og eignarhaldið á Landsbankanum til lengri tíma. Sem dæmi mætti búa þannig um hnútana að ríkið færi með um helmingshlut í Isavia og fengi inn nýja hluthafa. Eins og nýlegir atburðir sýna getur rekstur flugvalla verið sveiflukenndur. Það er gífurlegt fjármagn bundið inni í rekstur Isavia og í eignum félagsins. Ég tel að við getum náð öllum okkar helstu markmiðum með félaginu og stjórna því sem þarf að stjórna á Keflavíkurflugvallarsvæðinu þó að hluti þess væri t.d. seldur til erlendra aðila sem hafa mikla alþjóðlega reynslu af flugvallarekstri. Það myndi gagnast Isavia að fá inn aðila með slíka þekkingu og reynslu. Um leið myndi losna um háar fjárhæðir sem ríkið gæti nýtt til áframhaldandi uppbyggingar á innviðum hér innanlands.“
Bjarni telur að ríkið gæti fengið a.m.k. 50 milljarða króna í sinn hlut fyrir sölu á minnihluta í Isavia en það fari eðli máls samkvæmt eftir því hve stór hlutur yrði seldur. Jafnframt sé ljóst að mikil fjárfestingarþörf sé til staðar hjá Isavia sem nauðsynlega þarf að ráðast í til að tryggja samkeppnishæfni flugvallarins. Spurður um hvort hann sé bjartsýnn á að samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn yrðu samþykkir sölu á hlut í Isavia segir Bjarni að umræðan hafi enn sem komið er lítið borið á góma.
„Ég held að viðbrögðin færu mikið eftir því hvernig að sölunni yrði staðið og hvernig ætti að ráðstafa söluandvirðinu.“
Nánar er rætt við Bjarna í tímariti Frjálsrar verslunar um einkavæðinguna. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild sinni hér.