Ein af allra umfangsmestu einkavæðingum ríkisins á upphafsárum einkavæðingarinnar var sala á gömlu Síldarverksmiðjum ríkisins, eða SR-mjöl hf. Mikið tap hafði verið á rekstri fyrirtækisins fram að einkavæðingu, og var félagið í raun ekki talið rekstrarhæft lengur án verulegrar hlutafjáraukningar eða fyrirgreiðslu ríkisins.
Í lok árs 1993 var samþykkt kauptilboð upp á 725 milljónir króna, um 2,6 milljarða króna að núvirði, í öll hlutabréf ríkisins í SR-mjöli. Þeir sem stóðu að tilboðinu voru Benedikt Sveinsson og Jón Aðalsteinsson, fyrir hönd 21 útgerðarfyrirtækis og þriggja fjármálafyrirtækja.
Sigurður G. Guðjónsson lögmaður hafði einnig gert tilboð í fyrirtækið fyrir hönd Haraldar Haraldssonar. Tilboði þeirra, sem hljóðaði upp á 801 milljón króna staðgreiðslu, var hins vegar hafnað á þeirri forsendu að þeir fjármunir sem tilboðið væri byggt á væru ekki fyrir hendi, auk þess sem Haraldur hefði ekki viljað upplýsa opinberlega um hverjir stæðu með honum að tilboðinu, þótt hann hefði í trúnaði upplýst það.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 1994 um söluna var m.a. komist að þeirri niðurstöðu að hvorugt tilboða í fyrirtækið hefði uppfyllt þau skilyrði sem höfðu verið sett í útboðsskilmálunum. Aðeins tveir hópar buðu í félagið og sá sem átti hærra tilboðið var dæmdur úr leik þar sem hann var ekki talinn geta staðið við tilboðið.
Þá taldi Ríkisendurskoðun óviðunandi að fela eingöngu einum aðila að meta framtíðartekjuvirði fyrirtækis. Þá benti samanburður að mati tilboðsgjafa á framtíðartekjuvirði SR-mjöls hf. annars vegar, og mati Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka hins vegar, til þess að verðmæti fyrirtækisins hefði verið hærra en sem nam söluverði bréfanna.
Ríkisskip lögð niður
Ríkið lagði einnig fjölmörg fyrirtæki niður á upphafsárum einkavæðingarinnar, þ.e. fyrirtæki sem voru í samkeppni við einkafélög á samkeppnismarkaði. Flutningafyrirtækið Ríkisskip var lagt niður árið 1992 og eignir þess seldar, þar á meðal öll þau skip sem félagið átti.
Sala á Ríkisskipum, þ.e. sala eigna að frádregnum skuldum og rekstrarkostnaði, kostaði ríkið um 90 milljónir króna. Hins vegar sparaði ríkið sér framlög til fyrirtækisins, sem það hefði þurft að leggja til á ári hverju, með því að leggja félagið niður.
Þannig námu greiðslur ríkissjóðs til fyrirtækisins á tímabilinu 1983-1992, í formi beinna framlaga og yfirtekinna lána, tæpum 3,6 milljörðum króna á verðlagi í ágúst 1994 eða um 360 milljónum króna að meðaltali á ári.
Miðað við verðlag í dag eru það tæpir 1,3 milljarðar að meðaltali á ári og tæpir 13 milljarðar á þessu tíu ára tímabili. Í kjölfar þess að Ríkisskip voru lögð niður varð töluverð samkeppni á milli Eimskipafélags Íslands hf. og Samskipa hf. um strandsiglingamarkað þar til Samskip hætti þeim siglingum árið 2001.
Nánar er fjallað um sögu einkavæðingar á Íslandi í nýútkomnu tímariti Frjálsrar verslunar um einkavæðinguna. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.