Alþjóðaflugvellir víða um heim eru margir í eigu einkaaðila sem oft eru með mikla reynslu og þekkingu þegar kemur að innviðafjárfestingum og rekstri flugvalla. Þannig má t.d. benda á að flugvellirnir Heathrow og Gatwick í London eru báðir í eigu hóps fjárfesta.
Staða Keflavíkurflugvallar sem helsta millilandaflugvallar eylandsins Íslands kann að gera það að verkum að ekki verði samstaða um einkavæðingu á vellinum í heild sinni.
Sala á minnihluta í flugvellinum kann þó að vera raunsærri valkostur, ekki síst í ljósi þess að Isavia hyggst ráðast í yfir hundrað milljarða króna fjárfestingu í uppbyggingu vallarins næsta áratuginn. Jafnframt varpaði Covid-faraldurinn ljósi á þá áhættu sem felst í eignarhaldi á flugvöllum.
Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og fyrrum fjármálaráðherra, hefur lýst því yfir að honum þætti rétt að skoða sölu á minnihluta í Isavia en slíkt gæti skilað ríkinu um 50 milljörðum króna að hans mati. Með sölunni gæfist einnig tækifæri á að fá fjárfesta með sérþekkingu af rekstri alþjóðaflugvalla að Isavia.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, er meðal þeirra sem hafa einnig kallað eftir að fá erlenda fjárfesta að Isavia.
„Við þurfum ekki alltaf að finna upp hjólið hérna á Íslandi, við getum bara horft á hvernig hlutirnir eru úti í heimi og hvar þeir ganga vel,“ sagði Bogi í hlaðvarpsþættinum Chess after Dark fyrir rúmu ári.
„Við höfum séð mörg dæmi um það á flugvöllum úti í heimi að einkavæðing, eða einkavæðing að hluta, hefur gengið mjög vel. Ég tel að það væri mjög hollt fyrir okkur Íslendinga að skoða það mjög alvarlega að fá að erlenda fjárfesta, helst með sérþekkingu í svona rekstri.“
Eignir Isavia voru bókfærðar á 112 milljarða króna í árslok 2023 og eigið fé var um 44 milljarðar.
Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun um helstu tækifæri ríkisins til einkavæðingar sem finna má í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út 20. mars 2024.