Íslandspóstur veitir alþjónustu, þ.e. þá lágmarkspóstþjónustu sem notendum skal standa til boða samkvæmt lögum, og á í samkeppni á sviði flutninga- og hraðsendingaþjónustu.
Sá hluti alþjónustunnar sem ekki stendur undir sér eða hægt er að reka á viðskiptalegum forsendum, einkum póstflutninga á mjög strjálbýl svæði, telst vera alþjónustubyrði.
Í lok árs 2020 var Íslandspóstur útnefndur alþjónustuveitandi til allt að tíu ára, með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar. Tekjur til Íslandspósts vegna alþjónustubyrði námu 665 milljónum árið 2022.
Einkaréttur Íslandspósts ohf. til að veita þjónustu á ákveðnum hlutum íslenska póstmarkaðarins var felldur niður með nýjum lögum um póstþjónustu sem tóku gildi árið 2019. Frá þeim tíma hefur póstmarkaðurinn verið skilgreindur sem hreinn samkeppnismarkaður.
Auk afnáms einkaréttarins hefur póstmarkaðurinn tekið miklum breytingum með tækniframförum og breyttum neysluvenjum sem hafa leitt af sér mikinn samdrátt í bréfsendingum en fjölgun pakkasendinga, m.a. vegna vaxandi netverslunar. Í ljósi þessa má velta fyrir sér hvort ekki sé réttur tími að einkavæða Íslandspóst og bjóða út þá þjónustu sem ekki er talinn rekstrargrundvöllur fyrir. Þannig mætti m.a. bæta rekstrarumhverfi frumkvöðla og fyrirtækja úti um allt land á sviði flutninga- og póstþjónustu.
Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, sagðist árið 2019 vera þeirrar skoðunar að þegar lagaumgjörðin um starfsemina og reksturinn væru komin í betra horf þá væri ekkert því til fyrirstöðu að ríkið seldi reksturinn.
„Ríkið á ekki að vera í rekstri á samkeppnismarkaði. Til þess þarf alveg sérstök rök. Þau eru ekki til staðar á markaði við að dreifa bréfsendingum, pökkum og bögglum.“
Þórdís Kolbrún tók nýlega undir þessi sjónarmið og sagði að selja ætti Póstinn og bjóða út alþjónustuna. Á sama tíma skyldi tryggt að alþjónusta væri veitt og greitt fyrir hana á svæðum þar sem markaðsbrestur er.
Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Íslandspósts, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið vorið 2022 að hún fagnaði samkeppni á markaðnum. Hins vegar væri ljóst að ekkert einkafyrirtæki sé að fara taka að sér að bera út pakka og bréf á strjálbýl svæði þar sem það standi ekki undir sér.
„Pósturinn er alfarið kominn út í samkeppni því í dag mega allir dreifa bréfum og fara með pakka. Við veitum alþjónustu fyrir hönd ríkisins en förum ekki í grafgötur með það að útboð eða einhvers konar þjónustusamningur við ríkið væri enn betra fyrirkomulag fyrir okkur heldur en að við séum gerð að alþjónustuveitanda í gegnum lagaákvæði.“
Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun um helstu tækifæri ríkisins til einkavæðingar sem finna má í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út 20. mars 2024.