Ríkisútvarpið hóf göngu sína árið 1930 og á eignarhald ríkisins sér því sögulegar skýringar. Mörg rök hníga þó að því að bein þátttaka ríkisins á fjölmiðlamarkaði sé barn síns tíma. Innreið annarra fjölmiðlafyrirtækja á markaðinn og tækniframfarir draga stórlega eða alfarið úr þörfinni á að halda úti ríkisfjölmiðli til að sinna öryggisþjónustu í formi upplýsingamiðlunar.

Meðal annarra hlutverka RÚV er að sinna menningar- og samfélagslegum þörfum. Ekki er hægt að segja annað en að önnur fjölmiðlafyrirtæki sinni mikilvægu og fjölbreyttu menningarhlutverki og gætu eflaust gert það enn betur við bætt rekstrarumhverfi.

Vandinn við Ríkisútvarpið er einkum fyrirkomulag rekstrarins. Landsmönnum er gert skylt samkvæmt lögum að greiða um 20 þúsund króna árlegt gjald sem rennur til RÚV. Framlag til RÚV, sem þessi skylduáskrift skilar, er sem dæmi meira en heildartekjur Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins.

Auk þess hefur þátttaka RÚV á auglýsingamarkaði valdið mikilli gremju og hafa samkeppnisaðilar lýst yfir áhyggjum af undirboðum ríkismiðilsins.

Meðal hugmynda sem viðraðar hafa verið um hvernig megi bæta samkeppnisstöðu frjálsra fjölmiðla er að takmarka þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði, leyfa skattgreiðendum að útdeila útvarpsgjaldi til þeirra fjölmiðla sem þeir kjósa eða jafnvel láta framlög til RÚV renna að hluta í samkeppnissjóði til styðja við innlenda dagskrárgerð, þar sem RÚV myndi keppa um opinbert fjármagn á jafnræðisgrundvelli. Önnur leið væri að leggja RÚV niður og selja eignir fyrirtækisins.

Eignir RÚV voru bókfærðar á 9,7 milljarða um mitt ár 2023 og eigið fé var um 1,7 milljarðar.

Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun um helstu tækifæri ríkisins til einkavæðingar sem finna má í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út 20. mars 2024.