Lágt raforkuverð og kalt veðurfar gerir það einkum arðbært að grafa eftir rafmynt hérlendis. Marco Andreas Streng þekkir það einkum vel en hann er stofnandi og forstjóri fyrirtækisins Genesis Mining sem heldur utan um rekstur rafmyntunáma á Suðurnesjum. Fyrirtækið grefur eftir Bitcoin og Ether og er eitt það stærsta í heiminum á því sviði. Streng er einn þeirra þrjátíu erlendu fjárfesta sem tekið hafa þátt í íslensku atvinnulífi og fjallað er um í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar.

Fyrirtækið var stofnað árið 2013 og hóf rekstur á Íslandi ári eftir en segist vera starfrækt í öllum heimsálfum í dag. Milljarðar hafa verið lagðir í uppbyggingu á rafmyntanámugreftri félagsins í Reykjanesbæ.

Streng hefur fullyrt að félagið hans kaupi raforku hérlendis fyrir um eina milljón evra á mánuði, andvirði 162 milljóna króna. Hann hefur sagst hafa áhuga á að kaupa jarðvarmaorkuver á Íslandi. Streng er fæddur 1989 og var alinn upp í Þýskalandi. Hann hóf nám þar í landi við stærðfræði en hætti áður en hann lauk gráðunni til að hefja viðskiptaferil sinn. Streng hóf að grafa eftir rafmynt við nám sitt en hætti starfseminni þegar greiða þurfti rafmagnsreikninginn.

Ásamt Genesis Mining hefur Streng stofnað Genesis Group, móðurfélag Genesis Mining, og fjárfestingasjóðinn Logos Fund. Streng stofnaði Logos Fund árið 2016. Sjóðurinn var skráður hjá bandaríska fjármálaeftirlitinu og samkvæmt Reuters er það fyrsti skráði sjóðurinn sem einblínir á námuvinnslu rafmynta. Árið 2017 námu eignir sjóðsins yfir 100 milljónum dollara, andvirði tæplega fjórtán milljarða króna.

Nánar er fjallað um erlenda auðmenn á Íslandi í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að gerast áskrifandi hér .