Í Reykjavík vantar enn kennara til starfa ef marka má fréttir Ríkisútvarpsins í gærdag. Útvarpið segir að 40 vanti en Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður menntaráðs, segir að það sé of há tala. Þetta er líka lægri tala en í fyrra þegar 70 vantaði á sama tíma ársins.

***

Tý finnst aukaatriði hver talan er nákvæmlega, það sem máli skiptir er að þessi vandi skuli sí og æ koma upp hér á landi. En raunar kemur vandinn ekki aðeins upp hér á landi. Þýska ríkið rekur ljósvakamiðla eins og hið íslenska og í þýska ríkissjónvarpinu var í fyrrakvöld fjallað um sama vandamál. Þar kom fram að kennaraskortur hrjái þýsku sambandsríkin og þau keppi nú um kennara. Hessen sé til dæmis farið að bjóða betur en nágrannaríkin og laði til sín kennara þaðan með auglýsingaherferðum nágrönnunum til lítillar skemmtunar.

***

Í umfjöllunina vantaði vitaskuld ekki sjónarmið afturhaldsaflanna. Einn viðmælandinn hélt því fram að þetta frumkvæði Hessen væri til lítils því að kennurum fjölgaði ekki við þetta, þeir flyttust bara til og eins brauð væri því annars dauði í þessu efni. Fyrir þá sem eiga erfitt með að sjá fyrir sér breytingar hljóma slíkar skoðanir örugglega sannfærandi. Þannig hefur til að mynda alltaf verið hljómgrunnur fyrir því sjónarmiði að þeir tekjuhærri sæki aurana til hinna tekjulægri. Kakan sé með öðrum orðum föst stærð og skipting kökunnar sé það sem allt eigi að snúast um.

***

Eins og Íslendingar þekkja hins vegar mæta vel og líklega betur en flestar aðrar þjóðir er kakan ekki föst stærð. Hún stækkar mikið þegar réttar leikreglur eru haldnar í heiðri og meðal þessara leikreglna er frjáls samkeppni. Týr vill nú ekki fullyrða að samkeppnin um kennarana í Þýskalandi falli fyllilega undir hugmyndina um frjálsa samkeppni, en samkeppnin þar verður engu að síður örugglega til góðs.

***

Það er ekki gott fyrir kennara – frekar en aðra – að vinnuveitendur þeirra líti svo á að ekki þurfi að hafa fyrir því að fá þá til vinnu eða halda þeim í vinnu. Kennarar eiga að vera eftirsóttir starfskraftar og vinnuveitendur þeirra eiga að keppast um að fá þá til starfa og halda þeim bestu í starfi. Vandinn er hins vegar sá að það er tæpast hægt að tala um „vinnuveitendur“, miklu nær að tala um „vinnuveitanda“, því að þó að sveitarfélögin reki nú grunnskólana er samkeppnin á milli þeirra um kennarana í besta falli hófleg.

***

Vandi kennaranna er sá að þeir búa við þær aðstæður að nær allir atvinnumöguleikar þeirra eru hjá ríkinu eða sveitarfélögunum. Einkarekstur í skólakerfinu hefur sem betur fer farið vaxandi í seinni tíð, en það gerist afar hægt nema þá helst á háskólastiginu þar sem samkeppnin er farin að blómstra og skólarnir keppast um bestu kennarana.

***

Týr telur augljóst að til að sífelldar fréttir um skort á kennurum hætti þá verði að gera gagngerar breytingar á menntakerfinu hér á landi. Ríkið og sveitarfélögin þurfa að stuðla að því að auka vægi einkarekstrar í menntakerfinu öllu til að tryggja þar eðlilega samkeppni jafnt um kennara sem gæði menntunarinnar.

***

Bæði kennarar og nemendur þurfa að fá að blómstra til að kennarastarfið verði eftirsóknarverðara og menntunin betri. Það gerist ekki með því að setja alla í sömu kassana. Myglusveppirnir geta verið víðar í kennslustofunum en í veggjunum og loftinu. Týr telur að andlegu myglusveppirnir séu ekki síður skaðlegir en hinir.