Kolefnisspor íslensks sjávarútvegs hefur dregist saman um helming á undanförnum árum. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði, Stefán Gunnlaugsson, umhverfisstjórnunarfræðingur, og Hreiðar Valtýsson, fiskifræðingur, gerðu og kynnt var á samnorrænni ráðstefnu um umhverfisáhrif og orkuskipti í sjávarútvegi í síðustu viku.

Niðurstaða fræðinganna er að fiskveiðistjórnunarkerfið skipti sköpum í þessu samhengi. Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið byggir á hvötum sem hvetja til sjálfbærni og arðsemi. Það að einn þeirra fræðinga sem kemst að þessari niðurstöðu sé jafnframt varaformaður Viðreisnar er áhugavert. Stefna þess flokks í sjávarútvegsmálum er að svipta fyrirtæki lykileignum og endurúthluta þeim í miðstýrðu, flóknu, dýru og ógagnsæju ferli, sem á lítið skylt við hinn frjálsa markað. En það er önnur saga.

Það sem er ekki síst áhugavert við rannsókn Daða, Stefáns og Hreiðars er að hún sýnir greinilega hversu samofin hugtökin sjálfbærni og arðsemi eru í raun og veru. Hagkvæm nýting framleiðsluþátta er forsenda sjálfbærni. Þannig leiðir kvótakerfið til þess að sjávarútvegsfyrirtæki ganga um auðlindina með sómasamlegum hætti. Það þurfti enga umhverfisfræðinga til þess að benda stjórnendum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja fyrir tuttugu árum á að það væri gagnlegt fyrir reksturinn að minnka kolefnissporið. Sjálft fiskveiðistjórnunarkerfið kallaði hreinlega á þá þróun.

Fyrirhugaðar reglur Evrópusambandsins um mengunarkvóta í sjóflutningum hafa verið í umræðunni undanfarna mánuði. Sem kunnugt er þá óskuðu íslensk stjórnvöld ekki eftir undanþágu frá reglunum sökum mikilvægi sjóflutninga fyrir íslenskt efnahagslíf. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra réttlætti þessa afstöðu með því að segja að hver einasti atvinnuvegur þurfi að leggja sitt að mörkum í baráttunni við loftlagsvána og þar sé skipaflotinn ekki undanskilinn.

Þessi skoðun afhjúpar ákveðinn misskilning. Þessi skattur mun einn og sér ekki leiða til þess að kolefnisútblástur kaupskipaflotans muni dragast saman. Hann mun einungis leiða til aukins kostnaðar inn- og útflutnings. Skipafélögin hafa nú þegar hagræna hvata til þess að draga úr losun. Það er skortur á innviðum sem stendur í vegi fyrir þeirri þróun. Skattheimta breytir engu í þeim efnum.

Það er algengt að rætt sé um að UFS leiðbeiningarnar um umhverfislega og félagslega þætti auk stjórnarhætti séu í andstöðu við hefðbundin arðsemissjónarmið. Því fer fjarri. Þegar Sameinuðu þjóðirnar settu sér markmið um sjálfbæra þróun 2015 byggðu þau á þremur meginstoðum sem eru óaðskiljanlegar: hagrænni, vistfræðilegri og samfélagslegri stoð. Hugmyndin er að atvinnustarfsemi sem nýtir náttúrulegar auðlindir með sjálfbærum hætti og starfar í sátt við samfélagið – með því að skila heilbrigðu skattspori til að mynda – teljist vera í sjálfbærri þróun til lengri tíma ef arðsemin er viðunandi.

Rannsókn þeirra Daða, Stefáns og Hreiðars sýnir svo ekki verður um villst að íslenskur sjávarútvegur er sjálfbær. Í viðtali í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í síðustu viku var haft eftir Daða að Íslendingar væru leiðandi þjóð hvað varðar að draga úr losun á matvælaframleiðslu í heiminum. Ástæðan væri fyrst og fremst fiskveiðistjórnun.

„Ef við drögum almennan lærdóm af niðurstöðum okkar sýnir það að í heiminum almennt væri hægt að ná miklu betri árangri bara með því að bæta fiskveiðistjórnun. Það þyrfti ekkert endilega skipta um tækni strax. Byrjum á kerfinu. Það myndi skila margföldum áhrifum í sjálfbærum veiðum og líka betri efnahag,“ var haft eftir Daða.

Taka má undir hvert orð. Ráðamenn ættu því að huga frekar að því hvernig megi nýta hagræna hvata til þess að ná sjálfbærnimarkmiðum í fleiri þáttum atvinnulífsins rétt eins og í fiskveiðistjórnunarkerfinu í stað þess að grafa undan því.