Týr veltir fyrir sér á hvaða vegferð borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er. Á meðan fjárhagur borgarinnar er rjúkandi rúst víla borgarfulltrúar flokksins ekki fyrir sér að þiggja utanlandsferðir á kostnað útsvarsgreiðenda til tveggja stórborga við Kyrrahafið í norðvesturhluta Bandaríkjanna.

Týr veltir fyrir sér á hvaða vegferð borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er. Á meðan fjárhagur borgarinnar er rjúkandi rúst víla borgarfulltrúar flokksins ekki fyrir sér að þiggja utanlandsferðir á kostnað útsvarsgreiðenda til tveggja stórborga við Kyrrahafið í norðvesturhluta Bandaríkjanna.

Alls fóru tíu borgarfulltrúar í ferðina en tilgangur hennar var að fræðast um sjálfbærni, nýsköpun og rannsóknir í Portland og Seattle. Það var vel til fundið af borgarfulltrúunum að velja þessar tvær borgir: mörgum af þeim almenningssamgönguverkefnum sem hafa farið mest fram úr fjárhagsáætlunum í Bandaríkjunum á síðustu áratugum var einmitt ýtt úr vör í þessum borgum. Týr telur einsýnt að borgarfulltrúarnir ferðaglöðu hafi lagt sig sérstaklega fram við að kynna sér þessi verkefni.
***

Greinilegt er að ferðalagið hefur markað djúp spor í huga Ragnhildar Öldu Vilhjálmsdóttur sem var fulltrúi borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins ásamt Kjartani Magnússyni. Hún birti grein í Morgunblaðinu á mánudag um ópíóðafaraldurinn í Portland. Erfitt er að sjá hvaða gagn það gerir fyrir borgarbúa að borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sé orðinn sérfróður um vímuefnavandann við Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna án þess að lítið sé gert úr þeim ömurlega vanda sem þar er á ferðinni.
***
Annars hefur lítið heyrst frá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í sumar. Verður það að teljast mikil vonbrigði miðað við hvernig ástandið er í rekstri borgarinnar, sorphirðufárið og viðvarandi mygluvandamál. Helst hefur heyrst af baráttu þeirra fyrir að auka framlög til áhugaleikhópa, verndun gamals hjalls í Vesturbænum og verðtryggingu launagreiðslna nemenda í vinnuskólanum.

Týr er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.