Eins og fjallað hefur verið um á þessum vettvangi er tannheilsa íslenska heimskautarefsins æði misjöfn eftir landshlutum. Þannig eru tannskemmdir refa meiri á landinu vestanverðu en annars staðar. Umtalsvert var fjallað um tannheilsu refa í Ríkisútvarpinu og Morgunblaðinu fyrr í mánuðinum og þykir þetta til marks um að skollin sé á svokölluð gúrkutíð
Gúrkutíð er hugtak sem er notað yfir fréttaþurrðina sem oft vill einkenna hásumarið. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbrigði. Einnig er talað um gúrkutíð í Danmörku og Þýskalandi. Samkvæmt svari Guðrúnar Kvaran fyrrum prófessors í íslensku við Háskóla Íslands er upprunans að leita í máli kaupmanna í Berlín. Átt var við þann tíma sumars þegar gúrkurnar þroskuðust og voru lagðar í súr en á sama tíma stóðu frí sem hæst og viðskipti voru í lágmarki.
Stundum er sagt að það sé í raun ekkert til sem heitir gúrkutíð en lata blaðamenn megi hins vegar finna víða. Vafalaust er eitthvað til í þessu. En þrátt fyrir að enginn hörgull sé á fréttum og markverðum tíðindum þetta sumarið má greina anda gúrkunnar svífa yfir vötnum og margt ratar í fréttirnar um þessar mundir sem engan vegin getur talist markvert.
Þannig var sagt frá því í netútgáfu Morgunblaðsins í vikunni að borgarbúar væru ekki að leita til lækna vegna gosmengunar vegna eldanna á Reykjanesi. Í frétt Morgunblaðsins sagði:
„Ekki hefur borið á því að borgarbúar hafi leitað í auknum mæli til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna óþæginda af völdum loftmengunar frá eldgosinu við Litla-Hrút að sögn Jónasar Guðmundssonar, starfandi forstjóra Heilsugæslunnar.“
Það er vafamál hvort að óorðnir atburðir eða það sem ekki gerðist eigi að rata í fréttirnar – jafnvel yfir hásumarið. Á móti kemur að á samfélagsmiðlum hefur nafntogað fólk kvartað yfir hausverk, hálsbólgu og óþægindum og rekja það til gosmengunar þannig að ofangreindur fréttaflutningur fer ekki fram í neinu tómarúmi. Og sennilega gæti það verið ágætis fréttamál að leita skýringa á því hvers vegna svo margir nafntogaðir einstaklingar kvarti yfir óþægindum vegna gosmengunar meðan að mælar Veðurstofunnar sýna ágæt loftgæði í borginni. En það er annað mál.
***
Annað dæmi einhvers konar erindisleysu í fréttaöflun á miðju sumri er viðtal sem birtist einnig á vef Morgunblaðsins um atburðarrásina sem hófst í kjölfar uppreisnar Wagner-málaliðasveita Jevgenís Prígosjíns gegn stjórnvöldum í Moskvu.
Morgunblaðið leitaði þá til Friðriks Jónssonar fyrrverandi formanns BHM eftir viðbrögðum sem sagðist bara vera „hvumsa“ yfir þessu öllu saman. Eða eins og segir í fréttinni:
„Þetta er óneitanlega mjög sérkennilegt – og að Prígosjín eigi að vera að fara til Hvíta-Rússlands, hér er eitthvað meira og dýpra á bak við, þarna er eitthvað sem gengur ekki upp og ég held að við höfum ekki séð þessa skák leikna til enda,“ heldur Friðrik áfram og er að fá sér ís í London meðan á viðtali stendur.“
Í raun er viðtalið stórskemmtilegt enda skrifað af Atla Steini Guðmundssyni blaðamanni og væntanlega einstætt þar sem að viðmælandinn spurði fleiri spurninga en blaðamaðurinn í viðtalinu. Friðriki var þó vorkunn því hvorki hann né aðrir gátu ráðið í stöðuna sem var uppi nokkrum dögum eftir uppreisn Wagner-liða.
Er þetta nokkuð skondið og má velta fyrir sér af hverju þessir fjölmiðlar stigi ekki skrefið til fulls og fari að tala um Rússneska aðalverktaka í þessum efnum.
En talandi um Wagner-málaliðasveitirnar. Nokkuð hefur borið á því að talað hafi verið Wagner-verktakafyrirtækið í fjölmiðlum á borð við Vísi eða DV. Er þetta nokkuð skondið og má velta fyrir sér af hverju þessir fjölmiðlar stigi ekki skrefið til fulls og fari að tala um Rússneska aðalverktaka í þessum efnum.
***
Þjóðmál er vinsælt hlaðvarp í umsjá Gísla Freys Valdórssonar. Hlaðvarpið leikur á hægrikantinum á velli íslenskra stjórnmála. Sá sem þetta skrifar er ekki ókunnugur þættinum og hefur verið nokkuð reglulegur gestur gegnum tíðina.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins var gestur Gísla Freys fyrir skemmstu. Viðtalið var áhugavert og Bjarni sagði ýmislegt sem hefði undir eðlilegum kringumstæðum átt að vekja meiri athygli fjölmiðla.
Þegar talið barst að stofnun þjóðarsjóðs sem fjármálaráðherra hefur verið tíðrætt um spurði Gísli Bjarna hvort að ef ríkissjóður lægi á fjármunum sem hann hefði ekkert við að gera væriekki nærtækast að lækka skatta í stað þess að safna þeim í sérstakan sjóð í stýringu ríkisins?
Bjarni svaraði þessu með eftirfarandi hætti:
„Jú ég skil alveg þá pælingu, en ef að ríkissjóður fer skyndilega í halla vegna þess að það verður afla brestur eða það lokast alþjóðaflugvellir eða einhver meiriháttar önnur röskun á sér stað þá þarf ríkissjóður að fara út og taka lán á þeim tíma sem vextirnir versna – hækka sem sagt – og það er nákvæmlega það sem við erum að sjá fram á núna.
Við höfum þurft að taka lán núna, meðan að ríkissjóður hefur verið í halla, á allt öðrum kjörum heldur en áttu við rétt áður en heimsfaraldurinn skall á. Þá hefði verið mjög gott að eiga bara fyrir útgjöldunum, í einhverskonar áfallavarasjóði, og koma út úr kreppunni miklu skuldalægri. Svo þegar kreppan er yfirstaðin og vextirnir koma aftur niður, þá geturðu endurfjármagnað þig og lækkað vaxtabyrðina.“
Hérna virðist fjármálaráðherrann vera tala fyrir því að koma á laggirnar einhvers konar áfallasjóð sem ætlað verði það hlutverk að losa þá sem stýra ríkisfjármálum hverju sinni undan ábyrgð. Skuldastaða ríkissjóðs var með ágætum þegar heimsfaraldurinn skall á og lamaði hagkerfi heims. Það gerði ríkissjóði kleift að fjármagna örvunaraðgerðir í efnahagsmálum. Á sama tíma lækkaði Seðlabankinn vexti sem að sjálfsögðu gerði fjármögnunarkjör ríkisins enn hagstæðari.
Nú er faraldurinn blessunarlega yfirstaðinn. En þrátt fyrir það er ekkert lát á hallarekstri ríkissjóðs og engin marktæk merki um aðhald í útgjöldum. Áfram skal stefnt að fjárlagahalla upp á tugi milljarða á næstu árum. Auðvitað hefur þetta áhrif á vaxtakjör ríkisins og skuldsetningu, svo ekki sé minnst á verðbólguna sem síhækkandi vöxtunum er beint gegn.
Aðhald og ábyrgð í ríkisfjármálum er mun skilvirkara veganesti til að mæta skyndilegum áföllum en einhverskonar þjóðarsjóður. Fráleitt er að safna í sjóð á sama tíma og skuldum er safnað með ósjálfbærum hallarekstri.
Vafalaust er ástæðan fyrir því að þessi ummæli hafa ekki vakið meiri athygli sú að breið pólitísk sátt virðist ríkja á Alþingi um að feta áfram leið hallareksturs og skuldasöfnunar. Einhverjum þætti það fréttnæmt.