Eins og flestir vita snýst fréttaflutningur í aðra röndina um hið sérstaka og óvanalega: maður bítur hund, Magnús Hlynur finnur krumma í uppsveitum Árnessýslu sem kann að prjóna og svo framvegis. En þessi nálgun á fréttaflutningi getur verið snúinn þegar fjallað er um fjármál heimila. Gæta verður að því að draga ekki of víðtækar ályktanir af einhverjum jaðartilfellum sem hafa litla skírskotun til fjármála hins venjulega Jóns Bakan.

Þannig sagði á forsíðu Fréttablaðsins á fimmtudaginn fyrir viku af sjómanni sem á um sárt að binda vegna hækkana vaxta og hafi þurft að leita aðstoðar hjá Neytendasamtökunum. Sjómaðurinn tók 70 milljóna króna fasteignalán sem hann hóf að borga af í maí í fyrra. Fyrstu afborganir af láninu voru 370 þúsund krónur á mánuði en er komin í 540 þúsund krónur í dag. Er þetta hækkun um 170 þúsund krónur.

Ekki var fjallað um þá staðreynd í fréttinni að miðað við 35% veðsetningarhlutfall þá hefur sá sem stóðst greiðslumat fyrir 70 milljóna króna húsnæðislán í fyrra væntanlega haft tæplega tvær milljónir að meðaltali á mánuði. Þó kemur fram í fréttinni að Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, hafi vakið athygli blaðamanns á málinu og að símar samtakanna væru nú rauðglóandi vegna Íslendinga sem eru að sligast vegna vaxtahækkana. Vafalaust finna margir fyrir aukinni vaxtabyrði en sennilega eiga sjómenn ekki marga fulltrúa í þeim hópi.

Athygli vekur í fréttinni að haft er eftir Breka að það sé umhugsunarefni að maðurinn hafi vegna hvatningar Seðlabankans og stjórnvalda á sínum tíma tekið þau skref sem hann steig í ákvörðunum um húsnæðismál. Er þarna vísað til ákvörðunar mannsins um að taka óverðtryggt lán á breytilegum vöxtum. Flestir sem fylgst hafa með umræðu um efnahagsmál vita að frá með árinu 2021 tók Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að mæla með því að sem flestir nýttu tækifærið og festu vexti af lánum sínum til að nýta þann meðbyr sem þá var uppi.

Að þessu sögðu má einnig benda á þá staðreynd að þeir sem eru með óverðtryggð fasteignalán á breytilegum vöxtum eru enn að borga neikvæða raunvexti þrátt fyrir myndarlegar vaxtahækkanir undanfarin misseri.

***

Í þessu samhengi er full ástæða til að benda blaðamönnum á ítarlega umfjöllun um greiðslubyrði heimilanna sem birtist í fjármálastöðug-leikaskýrslu Seðlabankans í síðustu viku. Þar er kvartað yfir hvernig fjallað er um skuldamál heimila í fjölmiðlum og opinberri umræðu. Eins og segir í skýrslunni eru gjarnan tekin dæmi um einstakling eða hjón með 100% óverðtryggt fasteignalán á breytilegum vöxtum. Slík framsetning sýnir þó aðeins afmarkaðan hluta af raunveruleika íslenskra lántaka. Fjölmargir lántakar hafa blandað saman fasteignalánum með föstum og breytilegum vöxtum, verðtryggðum lánum og óverðtryggðum. Því hafa hækkanir meginvaxta Seðlabankans síðustu misseri aðeins haft áhrif á greiðslubyrði hluta þeirra fasteignalána sem neytendur eru með.

Samkvæmt tölum Seðlabankans ætti mikill meirihluti heimila hafa borð fyrir báru þegar kemur að afborgunum af fasteignalánum. Samkvæmt Seðlabankanum greiða tæplega 75% heimila minna en 200 þúsund krónur á mánuði í vexti og afborganir og aðeins 14% greiða meira en 250 þúsund krónur. Þá kemur fram að sambærileg hlutföll eru 68% og 17% ef aðeins er horft til þeirra lántaka sem tóku nýtt lán frá janúar 2020. Þrátt fyrir að greiðslubyrði heimila hafi aukist síðustu misseri hefur hún aukist um minna en 30 þúsund krónur hjá um helmingi heimila. Hjá fjórðungi heimila hefur greiðslubyrðin staðið í stað eða lækkað.

Þá bendir Seðlabankinn á að þegar fjölmiðlar fjalla um þessi mál halda þeir sjaldnast þeirri staðreynd til haga að laun hafi hækkað á sama tíma og greiðslubyrðin hefur aukist vegna vaxtahækkana.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 23. mars 2023