Baráttu íslenska ríkisins fyrir því að hérlend fyrirtæki geti án hindrana auðkennt sig með heiti Íslands við markaðssetningu á vörum sínum og þjónustu var í lok síðasta mánaðar fram haldið á fundi fastanefndar Alþjóðahugverkastofnunarinnar í Genf.
Eins og þekkt er hafa íslensk stjórnvöld farið fram á að Evrópuskráning bresku verslunarkeðjunnar Iceland Foods Ltd. á orðmerkinu ICELAND verði ógilt, enda hefur eigandi vörumerkisins ítrekað andmælt umsóknum íslenskra aðila um skráningu vörumerkja sem innihalda heiti upprunalandsins. Sendinefnd Íslands hefur lagt fram sérstakt erindi á vettvangi fastanefndarinnar þar sem segir m.a. að það sé óásættanlegt að einstakir aðilar geti staðið í vegi fyrir því að íslensk fyrirtæki geti notað auðkennið Ísland. Almannahagur krefjist þess að enginn skuli eignast einkarétt til notkunar landaheita; öllum skuli frjálst að nota landaheiti sitt til auðkenningar og markaðssetningar. Eins geti skráning landaheita sem vörumerkja valdið villu um uppruna vöru eða þjónustu.
Það er skilyrði skráningar vörumerkis að merkið sé til þess fallið að greina vörur og þjónustu merkiseiganda frá vörum og þjónustu annarra. Vörumerki sem eingöngu gefa til kynna uppruna þeirrar vöru eða þjónustu sem merkinu er ætlað að auðkenna verða því almennt ekki skráð sem vörumerki. Það er auk þess skilyrði skráningar vörumerkis að það sé ekki til þess fallið að villa fyrir um uppruna. Þá er það meginregla í vörumerkjarétti að eigandi vörumerkis geti ekki bannað öðrum að nota í atvinnustarfsemi lýsingar á uppruna, að því tilskildu að notkunin sé í samræmi við góða viðskiptahætti.
Segja má að það sé ögn kaldhæðnislegt að á sama tíma og íslenska ríkið berst fyrir frjálsum afnotum landaheita skuli blásið til hátíðarsamkomu þar sem þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar þiggja auðmjúklega „að gjöf“ frá einkaaðila vörumerkið ICELANDIC og þann einkarétt sem því fylgir.
Höfundur er sérfræðingur í hugverkarétti og rekstri sprotafyrirtækja.