Viðskiptablaðið sagði frá því í síðustu viku að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu muni kostnaður fjármálafyrirtækja af rekstri fjármálaeftirlits Seðlabankans aukast um tæpan hálfan milljarð á næsta ári. Gert er ráð fyrir að eftirlitsgjaldið á næsta ári nemi 3,2 milljörðum króna og er það hækkun um þriðjung á tveimur árum.

Viðskiptablaðið sagði frá því í síðustu viku að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu muni kostnaður fjármálafyrirtækja af rekstri fjármálaeftirlits Seðlabankans aukast um tæpan hálfan milljarð á næsta ári. Gert er ráð fyrir að eftirlitsgjaldið á næsta ári nemi 3,2 milljörðum króna og er það hækkun um þriðjung á tveimur árum.

Seðlabankinn réttlætir hækkunina með því að vísa til þarfar til að mæta uppsafnaðri þörf vegna aukinna verkefna. Fáum dylst hvaða verkefni þar er um að ræða. Ef allt er með felldu taka verkefni fjármálaeftirlita ekki miklum breytingum milli ára. En þeir sem hafa fylgst með Seðlabankanum undanfarin ár vita að bankinn er farinn að láta að sér kveða í loftlagsmálum.

Þetta hefur gerst án þess að ríkisvaldið hafi beinlínis óskað eftir því og undarlega lítil umræða hefur átt sér stað um þessa áherslubreytingu Seðlabankans. Að vísu setur innleiðing stjórnvalda á reglugerð ESB um flokkun sjálfbærra fjárfestinga ákveðnar skyldur á herðar fjármálaeftirliti Seðlabankans. Þrátt fyrir það hefur eftirlitið teygt sig nokkuð lengra í þessum efnum.

Þannig sendi fjármálaeftirlitið langan lista á lífeyrissjóði landsins þar sem þeir voru spurðir spjörunum úr um allt milli himins og jarðar í samhengi við áhættumat þeirra vegna loftslagsbreytinga. Spurningarnar eru bein þýðing úr spurningalista sem Network for Greening the Financial System gaf út á sínum tíma. Í skýrslu með þeim spurningum er skýrt tekið fram að viðkomandi fjármálaeftirlit eigi að sjálfsögðu að sníða og staðfæra spurningarnar eftir aðstæðum í hverju landi fyrir sig.

Seðlabankinn hafði ekki metnað til þess að staðfæra spurningarnar. Þar af leiðandi eru spurningar huglægar og hefjast margar á því að eftirlitið leitast eftir svörum um hvort forráðamenn sjóðanna búist við hinu eða þessu og hvað þeir ætli að gera við því. Ekki verður með góðu móti séð hvaða tilgangi slíkt spurningaflóð þjónar öðru en því að eyða tíma vinnandi fólks.

Í nýútkominni ritgerð sem Brookings-hugveitan í Washington D.C gaf út fjalla Monica DiLeo, Glenn D. Rudebusch og Jens van ’t Klooster um hvernig gjá hefur myndast á milli Bandaríska seðlabankans annars vegar og Evrópska seðlabankans hins vegar þegar kemur að aðgerðum í loftlagsmálum. Evrópski seðlabankinn telur að hlutverk sitt sé að vera forvirkt afl í baráttunni gegn loftlagsvandanum meðan afstaða þess bandaríska snýr að efasemdum um að peningamálastefnan ein og sér geti haft hlutverki að gegna. Þessi gjá er að myndast eftir að áratuga sátt hefur ríkt um hvert hlutverk seðlabanka í nútímahagkerfi sé.

Margir fræðimenn eru á öndverðu meiði við afstöðu Evrópska seðlabankans í loftlagsmálum og telja stofnunina fara langt fram úr verksviði sínu. Þannig skrifar Jay Cullen, fyrrverandi prófessor í fjármálaeftirlitsfræðum við New York háskóla, í grein sem birtist í mars í Journal of Financial Regulation: „Ljóst er að grípa þarf til aðgerða til að stemma stigu við áhrif brennslu jarðefnaeldsneytis og áhrifa þess á samfélagið. En þetta þarf að gera með hagnýtum hætti og í því ljósi ber að skoða hlutverk seðlabanka. Eins og staðan er núna er valdsvið þeirra með þeim hætti að þeir geta lítið annað gert en að skreyta sig með dyggðum.“

Það verður ekki við ráðið að evrópskt regluverk kallar vafalaust á einhver umsvif og fjármálaeftirlit Seðlabankans: upplýsingaöflun og skjalaflokkun. Það breytir ekki því að fara þarf fram virk umræða hvort Seðlabankinn eigi yfir höfuð að færa sig úr peningamálunum yfir í umhverfismál, hvaða árangri það allt kunni að skila og hvort þetta hafi einhverja þýðingu fyrir þau markmið sem stjórnvöld hafa einsett sér að ná í loftlagsmálum.