Hver maður hefur sitt verð en auðvitað eru sumir ódýrari en aðrir þegar kemur að kaupum og kjörum. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, var í opnuviðtali í helgarblaði Moggans.

Í viðtalinu er rætt við Kristrúnu um stjórnmálástandið og horfur. Þrátt fyrir að Kristrún fylgi ekki sömu útilokunarpólitík og forverar hennar og útiloki ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn þá er ljóst af viðtalinu að hún kýs samstarf til vinstri.

***

Í viðtalinu er haft eftir Kristrúnu:

Ég held að við Katrín séum sammála um margt. Hún er í stöðu þar sem hún kemur ákveðnum hlutum ekki í gegn. Ég held að hún væri betur sett með mig í fjármálaráðuneytinu en Bjarna.

Þessi orð hræða Tý og að sama skapi ætti að fara kaldur hrollur um skattgreiðendur landsins. Nú hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur verið á stöðugu útgjaldafylleríi frá stofnun hennar. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er búinn að vera með bensínið í botni og er að skila halla af fjárlögum sem nemur um 4% af landsframleiðslu á sama tíma og verðbólga er í 10% og hagvöxtur mælist um 6%.

***

Það er ekki furða að Seðlabankinn hækki vexti úr öllu valdi í svona árferði. Flestir stjórnmálamenn með grundvallarskilning á stjórn efnahagsmála skilja að verðbólga mun ekki hjaðna og vextir munu ekki lækka nema dregið verði úr ríkisútgjöldum með markvissum hætti næstu ár.

Kristrún lætur það ekki aftra sér. Eins og á böllunum í félagsheimilunum forðum tekur Kristrún upp harmónikkuna og slær í, kallar hátt og snjallt: Meira fjör! Þetta virðist vera hennar pólitíska erindi: Komast í ríkisstjórn og halda enn lausar um pyngjuna en núverandi fjármálaráðherra.

Týr er einn af reglulegum pistlum Viðskiptablaðsins.