Fjölmiðlarýnir kom víða við á árinu en hér eru fimm mest lesnu pistlar ársins.
1. Að vera úti á þekju
Íslandsbankamálið vakti talsverða athygli á árinu. Bankinn sendi frá sér Kauphallartilkynningu í byrjun árs í tengslum við væntanlega sátt við Fjármálaeftirlitið. Álitsgjafi RÚV kannaðist ekki við að stuðst væri við sáttarferli við lausn mála sem færu inn á borð FME, þrátt fyrir að hátt í tvö hundruð málum hefðu verið lokið með slíkri sátt frá árinu 2008.
2. Ómissandi ríkisstarfsmenn
Fjölmiðlarýnir velti fyrir sér mikilvægum verkefnum ýmissa ríkisstofnana á borð við Neytendastofu, Fjölmiðlanefndar og Ríkisútvarpsins.
3. Þórólfur smjör sest við samningaborðið
Fjallað var um digurbarkalegar fullyrðingar um stöðu efnahagsmála, þar á meðal fullyrðingar um gróðaverðbólgu.
4. Hin raunverulega staða heimilanna
Töluvert var rætt um vaxtahækkanir Seðlabankans og bein áhrif þeirra á fasteignalán landsmanna. Fjölmiðlarýnir velti fyrir sér framsetningu fjölmiðla á þessum áhrifum, þar sem ýkt dæmi voru oft á tíðum tekin fyrir í stað þess að horfa á heildarmyndina.
5. Þöggunartilburðir og fagleg vinnubrögð
Fjölmiðlarýnir fjallaði um ósætti þingmanns Pírata í garð blaðamanns Morgunblaðsins. Velti hann fyrir sér litlum áhuga fjölmiðla gagnvart tilburðum þingmannsins.