Mikil fylgisaukning Samfylkingarinnar eftir að Kristrún Frostadóttir, fyrrverandi blaðamaður á Viðskiptablaðinu, var kjörin formaður flokksins, kom Tý ekki á óvart. Þrátt fyrir að Kristrún sé enn óreyndur stjórnmálamaður þá er hún mesta efni Samfylkingarinnar um langa hríð. Þá sýndi hún mikla skynsemi þegar hún fleygði ESB og „nýju stjórnarskrána“ á haugana.
***
Týr tæki því fagnandi ef vinstra fylgið, sem á undanförnum árum hefur dreifst á stöðugt fleiri flokka, myndi þjappast aftur á einn til tvo flokka. Fjórflokkurinn var frábært fyrirbæri, þar sem flokkarnir voru nægilega stórir til að hafa raunveruleg áhrif og stunda alvöru pólitík. Fólk sem velst inn í stærri flokkum hefur þurft að sanna sig fyrir samflokksmönnum og er almennt hæfara. Í dag kann almenningur ekki deili á mörgum þingmönnum sem sumir láta lítið að sér kveða. Aðrir haga sér eins og trúðar og geta helst státað sig af því að auka á óskilvirkni með gagnslausum fyrirspurnum og frumvörpum. Kristrún mun vonandi leiða vinstri menn á hærra plan í pólitíkinni.
Jafnaðarmenn virðast þó enn einu sinni hafa fagnað of snemma. Við skulum ekki gleyma því að Samfylkingin og fleiri stjórnarandstöðuflokkar hafa inn á milli náð afar lofandi árangri í skoðanakönnunum án þess að slíkt skili sér í kjörkassann. Það þarf ekki að líta lengra til baka en til kannana í aðdraganda síðustu sveitarstjórnar- og þingkosninga sem í báðum tilfellum ofmátu fylgi Samfylkingarinnar og vanmátu fylgi Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki skrítið að fylgi aukist þegar ný stjarna rís, en það er langt í kosningar og hætt við að hún toppi of snemma. Það mun verða Kristrúnu áskorun að halda bjarma sínum fram til næstu kosninga.
***
Fjölmiðlar hafa sömuleiðis gert meira en góðu hófi gegnir úr niðurstöðu könnunarinnar þrátt fyrir að fylgisaukningin sé varla óvænt. Þannig fór til að mynda stór hluti viðtals á Sprengisandi við hinn nýja formann Samfylkingarinnar og varaformann Sjálfstæðisflokksins í það að ræða fylgismælingu flokkanna. Þótti Tý þar illa farið með tíma viðmælenda sem hafa margt markverðara fram að færa fyrir hlustendur en vangaveltur um fylgi þegar þrjú ár eru til kosninga.
Týr er skoðanapistill. Þessi birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 12. janúar 2023.
Fyrirsögn pistilsins var upphaflega „Ótímabært sáðlát" og í pistlinum sjálfum sagði „Jafnaðarmenn virðast þó enn einu sinni hafa fengið ótímabært sáðlát." Þetta orðalag er ósmekklegt og hefur því verið breytt. Viðskiptablaðið biðst afsökunar á þessu.