Eins og áður hefur verið minnst á þessum vettvangi þá vekur það furðu hversu lítil þekking er á efnahags- og fjármálum á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Þrátt fyrir alla milljarðana sem RÚV sogar til sín frá skattborgurum og auglýsingamarkaðnum virðist ekki vera hægt að setja metnað í að ráða starfsfólk sem kann í það minnsta kosti grundvallarhugtök efnahagsmála.

Þannig birtist frétt á vef Ríkisútvarpsins í kjölfar viðtalsins við Dag í Silfrinu þar sem hallarekstri var ruglað saman við skuldasöfnun. Það er að segja að fullyrt var í fréttinni að skuldir borgarinnar hefðu aukist úr fjórum milljörðum í fimmtán eða um milljarða þegar hið rétta var að einungis hallareksturinn væri að auka skuldirnar um þá upphæð.

Í þessu samhengi má einnig rifja upp frétt frá síðustu viku þar sem Ríkisútvarpið fullyrti að virði Alvotech hefði lækkað um 400 milljarða eftir að ljóst varð að bandaríska lyfjaeftirlitið gerði athugasemdir við rekstur lyfjafabrikku félagsins í Vatnsmýrinni. Hið rétta var að markaðsvirði félagsins var komið í 400 milljarða eftir lækkun á gengi hlutabréfa félagsins eftir að fréttirnar spurðust út.

***

En þrátt fyrir að viðtalið við Dag hafi verið gagnrýnivert þá var ýmislegt á Silfrinu að græða þrátt fyrir að það hafi ekki vakið athygli fjölmiðlamanna. Þannig upplýsti Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, að í nýju skrifstofuhúsnæði Alþingis fengju þingmenn einkaskrifstofur.

Í Dýrabæ Orwell eru öll dýr jöfn en sum eru jafnari en önnur. Eins og komið hefur fram þá hefur ríkið mótað þá stefnu að öll skrifstofurými í nýjum opinberum byggingum skuli vera opin. Það er að segja enginn ríkisstarfsmaður skal geta lokað sig af. Er þetta víst liður í trúverðugum aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að ná niður verðbólgu. Eða eins og segir í nýjustu ríkisfjármálaáætlun:

„Áhersla verður á sameiningar minni rekstrareininga, aukinn samrekstur og samnýtingu aðstöðu. Fækkun fermetra í skrifstofuhúsnæði ríkisins er ætlað að skila sparnaði sem nemur um 2 ma.kr. á ári í lok tímabils.“

Eðli málsins henta opin rými ekki allri starfsemi eins og háskólaprófessorar með fimm gráður og mun fleiri bókaskápa hafa bent á. Það er því fréttaefni að þingmenn telja að þessi tilmæli eigi taka til sín.