Árið 2013 kom ég heim úr sérnámi, tilbúinn að veita bráðveikum sjúklingum bestu mögulegu þjónustu. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum en raunveruleikinn var sá að ég sat mestalla vaktina á bak við tölvuskjá að skrifa nótur og gera beiðnir í hægvirku sjúkraskrárkerfi.

Árið 2013 kom ég heim úr sérnámi, tilbúinn að veita bráðveikum sjúklingum bestu mögulegu þjónustu. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum en raunveruleikinn var sá að ég sat mestalla vaktina á bak við tölvuskjá að skrifa nótur og gera beiðnir í hægvirku sjúkraskrárkerfi.

Lýsandi dæmi er það þegar hjúkrunarfræðingurinn segir "geturðu kíkt aðeins á þetta rauða auga á biðstofunni, hann er búinn að bíða svo lengi?". Einfalt vandamál sem ég get afgreitt á fáeinum mínútum en því fylgir margfalt lengri tími sem eytt er í að gera tilheyrandi nótu, lyfseðil, vottorð, bóka endurkomutíma og koma þessum upplýsingum rafrænt til sjúklings.

Í könnun HR árið 2020 komumst við að því að læknir ver allt að 70% af tíma sínum í tölvuskráningu og hjúkrunarfræðingar 50%. Læknar telja skráningarvinnu einn helsta orsakaþátt streitu og kulnunar í starfi.

Hvernig gat þetta orðið svona?

Fyrir aldamót voru nótur og fyrirmæli skrifuð með blaði og penna eða tekin upp á diktafón, afar skilvirk verkfæri. Rafvæðing sjúkraskrár fólst í því að rafvæða ferla sem höfðu reynst vel í tugi ára, þetta var óumdeilanlega bylting en leiddi til meiri vinnu fyrir heilbrigðisstarfsfólk og sífellt fleiri skráningarreita til að fylla út í með tilheyrandi músaklikkum.

Þróun sjúkraskrár hefur lengst af verið í höndum forritara sem hafa aldrei hitt sjúkling eða komið inn á sjúkrahús og hugbúnaðarkröfur koma frá stjórnendum sem eru flestir hættir að sinna sjúklingum. Þessu má líkja við kínverskan hvísluleik sem verður til þess að notandinn fær í hendurnar tól sem er allt annað en það sem hann bað um. Eins og skurðlæknir sem vantar hníf til að fjarlægja botnlangann en fær svo teskeið.

Sjúkraskrárkerfi hafa lengst af verið þróuð sem snauðar ríkislausnir þar sem fyrsta markmið er að kostnaður sé innan ramma fjárlaga. Kerfin eru hægvirk og frjósa á óheppilegum tíma á meðan biðstofan er stappfull. Oft heyrist setningin "þetta dugar flestum" og "það eru læknarnir sem kunna ekki á hana". Okkar mat er að læknarnir vilja sem minnst nota lausnina því hún hentar ekki starfi þeirra. Eflaust liggja fjölmargar ástæður þarna að baki en þegar uppi er staðið er samt bara eitt svar og svarið er nýsköpun.

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tölvutækni og sérstaklega forritun. Það veitir mér einstaka ánægju að getað sameinað áhugamálin tvö við gerð tæknilausna sem einfalda störf heilbrigðisstarfsfólks. Ég tel mig í dag geta bjargað fleiri mannslífum með því að þróa heilbrigðistæknilausnir en að standa vaktina og því stofnaði ég Leviosa árið 2019 með Matthíasi Leifssyni hagfræðing en við þróum nú sjúkraskrárkerfi byggt á þörfum notenda. Leviosa hefur verið styrkt tvívegis af Rannís og lokið fjármögnunarferli. Verandi sjálfur læknir get ég notað Leviosa á daginn og þróað það á kvöldin og ríkuleg tenging teymis okkar við heilbrigðisstarfsfólk leyfir dýrmæta endurgjöf. Þessi þekking og reynsla leyfir okkur að þróa lausnina margfalt hraðar og ódýrar en með hefðbundnum leiðum.

Þess má geta að uppreiknaður kostnaður á núverandi sjúkraskrárkerfi á Íslandi hleypur á milljörðum króna en bara á síðasta ári kostaði Embætti Landlæknis 500 milljónum króna í hugbúnaðarþróun.

Við teljum okkur geta stytt skráningartíma um að minnsta kosti 50%. Með raddgreiningu og raddskipunum er hægt að þrefalda hraða á gerð nótna. Möguleikarnir eru óendalegir og með tilkomu gervigreindar erum við bara rétt að byrja. Með ríkulegri þekkingu á klínískri starfsemi, tæknisviðinu sjálfu, brennandi áhuga og skýran fókus getum við þróað lausn fyrir litlum hluta af hefðbundnum kostnaði. Þess má geta að uppreiknaður kostnaður á núverandi sjúkraskrárkerfi á Íslandi hleypur á milljörðum króna en bara á síðasta ári kostaði Embætti Landlæknis 500 milljónum króna í hugbúnaðarþróun.

Ávinningur Landspítala

Samkvæmt ársreikningi Landspítala árið 2021 störfuðu þar 2.670 heilbrigðisstarfsmenn í fullum stöðugildum. Það gerir um 5.300.000 klukkustundir í vinnuframlag á ári eða 2.100.000 klst ef við hóflega áætlum að einungis 40% af tíma þeirra fer í skráningarvinnu. Áætluð 50% stytting á skráningarvinnu þýðir þá hagræðingu upp á 1.050.000 klst. eða 4.000.000.000 kr (m.v. meðallaun starfsstétta) sem jafngildir 530 stöðugildum heilbrigðisstarfsmanna. Hagræðing af þessu tagi mælist ekki einungis í fjárhæðum heldur einnig aukinni ánægju starfsfólks samhliða minnkuðu álagi og meiri tíma fyrir sjúklinga. Það leiðir til öruggari þjónustu og færri mistaka.

Matthías Leifsson og Davíð Þórisson.

Ábyrgð ríkisstofnana

Áðurnefnt vandamál sjúkraskrárkerfa er ekki séríslenskt fyrirbæri. Stærstu sjúkraskrárkerfi erlendis glíma einnig við tækniskuld og eru föst í því að plástra úrelta hugmynd um að færa pappírsnótur í rafrænt form. Epic, eitt stærsta kerfi heims skorar undir meðalagi í ánægjukönnunum. Epic er svo stórt að það hefur byggt heilt þorp fyrir starfsfólk sitt í Bandaríkjunum en er hins vegar smíðað í áratuga gömlu Visual-Basic forritunarumhverfi.

Covid var vekjaraklukka heilbrigðisyfirvalda sem áður litu á tæknilausnir sem þriðja hjólið. Þar reyndist upplýsingatækni óheyrilega dýrmæt og sannaði gildi sitt við eflingu heilbrigðiskerfisins. Áður óþekkt heilsutæknifyrirtæki uxu gríðarlega í Covid en sólskinssaga sænska fyrirtækisins Kry er dæmi um slíkt. Það var stofnað af nokkrum læknum í bílskúr og gerði fjarheilbrigðislausnir aðgengilegar fyrir sjúklinga og skapaði undiröldu í öllu heilbrigðiskerfinu. Á einni nóttu varð Kry að tæknirisa með milljónir notenda og var síðast metið á 270 ma.kr.

Heilsugæslan og Landlæknir bera mikla ábyrgð á því að greiða leið nýsköpunar ...

Þessi þróun hefur leitt til sprengingar í fjárveitingu til heilbrigðislausna. Stærð heilbrigðistæknimarkaðarins var metinn á 232 milljarða bandaríkjadala árið 2022 og reiknað er með 15% árlegum vexti næsta áratug. Controlant er gott dæmi um að Ísland á fullt erindi inn á þennan markað og tækifærin mikil.

Athygli vekur að löndin sem uxu mest á þessum markaði s.l. ár eru að veðja á nýsköpun og eyrnamerkja fjármagn til að styrkja innviði frekar en stök fyrirtæki. Ríkisrekin heilbrigðisþjónusta á Íslandi er um 90% af markaðnum og ríkisstofnanir njóta gríðarlegra aflsmuna gagnvart nýsköpunarfyrirtækjum sem hefja sína vegferð á litlum styrkjum og þurfa að sanna sig fljótt til að ná fótfestu. Stórar ríkisstofnanir eins og Landspítali, Heilsugæslan og Landlæknir bera mikla ábyrgð á því að greiða leið nýsköpunar og styðja þessi viðkvæmu fyrirtæki til að ná þroska og fá árangurstölur til að taka með erlendis. Þær er í raun útungunarstöð heilsutæknifyrirtækja og mega sem risastórar ríkisstofnanir ekki veita samkeppni með eigin hugbúnaðarhúsum sem veita beina og óvinnandi samkeppni sem knésetur lítil nýsköpunarfyrirtæki. Styrking innviða er flugbrautin sem nýsköpun þarf og þangað á að beina fjármagninu, ekki í ríkislausnir sem nýtast fáum og munu aldrei fara á erlendan markað.

Við erum lítið land með stuttar boðleiðir og sterka innviði. Heilbrigðisgagnagrunnar landsins eru hér samtengdir með hraðvirkri ljósleiðaratengingu. Íslandi býr yfir öfundsverðum sóknarfærum og er í raun draumaland nýsköpunar en limirnir dansa ekki enn eftir höfðinu. Nú er tíminn til að velja að halda áfram á sömu braut og lesa áfram fréttir um álag, kulnun og manneklu - eða að styrkja nýsköpun og virkja þannig grasrótina og alla þá þekkingu og drifkraft sem ríkislausnir skorti.

Höfundur er sérfræðilæknir í bráðalækningum og hefur starfað í ríflega áratug við bráðalækningar hérlendis og er einnig stofnandi nýsköpunarfyrirtækisins Leviosa.

Greinin birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á fimmtudaginn, 11. maí.