Hver hefði trúað að á Íslandi yrði til einn stærsti stoðtækjaframleiðandi í heimi? Að hér yrði til fyrirtæki sem framleiðir vörur til lækningameðferðar á sárum úr fiskroði sem bætir daglegt líf fjölmargra einstaklinga? Að daglega myndu 100 þúsund manns um heim allan spila íslenskan tölvuleik? Að íslensk tækni og hugvit hefði nú þegar umbylt matvælaframleiðslu á heimsvísu?

Hver hefði trúað að á Íslandi yrði til einn stærsti stoðtækjaframleiðandi í heimi? Að hér yrði til fyrirtæki sem framleiðir vörur til lækningameðferðar á sárum úr fiskroði sem bætir daglegt líf fjölmargra einstaklinga? Að daglega myndu 100 þúsund manns um heim allan spila íslenskan tölvuleik? Að íslensk tækni og hugvit hefði nú þegar umbylt matvælaframleiðslu á heimsvísu?

Allt voru þetta eitt sinn stórar hugmyndir sem kjarkmiklir einstaklingar hrintu í framkvæmd og úr hafa orðið gríðarleg verðmæti fyrir íslenskt þjóðarbú. Allt eitthvað óvænt sem byrjaði sem hugmynd. Það þarf kjark og þor til að taka af skarið með stórar hugmyndir og láta af því verða að framkvæma og láta þær verða að veruleika. Hugrekki og dugnaður frumkvöðlanna sem leggja oft nótt við dag til að gera hugmyndir að veruleika skiptir sköpum við að skapa verðmæti fyrir samfélagið allt, í samstarfi við þá fjárfesta sem taka slaginn með þeim.

Stjórnvöld skapa skilyrðin

Aðkoma stjórnvalda er einnig mjög mikilvæg að því leyti að stjórnvöld skapa umgjörðina og starfsskilyrðin. Með öflugum hvötum og skýrri lagaumgjörð eru meiri líkur á að hugmyndir verði að veruleika og þróist yfir í verðmæt fyrirtæki.

Þegar Alþingi samþykkti breytingar á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, með hækkun skattahvata vegna rannsókna- og þróunar, árið 2020 sagði greinarhöfundur í Silfrinu á RÚV að sú lagabreyting ein og sér gæti breytt Íslandi og stendur við það í dag. Tónninn var sleginn og Ísland er komið á kortið og orðið samkeppnishæft þegar kemur að nýsköpun.

Samtök iðnaðarins hafa í tvígang greint áhrif af hækkun á skattahvötum til nýsköpunar, í kjölfar hækkunar árið 2018 og aftur árið 2020, og voru niðurstöðurnar afgerandi. Fyrirtæki í hugverkaiðnaði settu aukið fjármagn í rannsóknir og þróun og háframleiðnistörfum fjölgaði.

Skattahvatar vegna rannsókna og þróunar eru öflugasta tólið í verkfærakistu ríkisins til að stuðla að nýsköpun. Þeir eru einnig fjárfesting ríkisins í framtíðarhagvexti. Kostirnir við skattahvata sem þessa eru að fjárfestingin er á forsendum markaðarins, verkefnin sem einkafjárfestar hafa trú á verða fyrir valinu. Þannig eru stjórnvöld ekki að velja sigurvegara, heldur að skapa skilyrði og umgjörð og leysa krafta atvinnulífsins úr læðingi. Forstjóri Kerecis sagði skömmu eftir 180 milljarða króna sölu á fyrirtækinu að það væri hvergi betra að stunda nýsköpun í dag en á Íslandi. Það segir mikla sögu.

CCP, Össur, Kerecis, Marel og eru dæmi um fjögur hugverkafyrirtæki sem voru eitt sinn bara hugmynd en eru nú stöndug og öflug fyrirtæki. Daglega spila sem dæmi 100 þúsund manns EVE online tölvuleikinn.
CCP, Össur, Kerecis, Marel og eru dæmi um fjögur hugverkafyrirtæki sem voru eitt sinn bara hugmynd en eru nú stöndug og öflug fyrirtæki. Daglega spila sem dæmi 100 þúsund manns EVE online tölvuleikinn.

Verðmætasta útflutningsstoðin á þessum áratug

Samtök iðnaðarins hafa birt fjölmargar greiningar og spár sem benda allar í sömu átt. Hugverkaiðnaður getur orðið verðmætasta útflutningsstoð landsins á þessum áratug. Í dag eru vaxtatakmarkanir í hugverkaiðnaði af tvennum toga.

Annars vegar snúa þær að skorti á mannauði í sérhæfð störf á fjölbreyttum sviðum. Nýleg greining SI á mannauðs- og færniþörf í tækni- og hugverkaiðnaði leiddi í ljós að enn er veruleg vöntun á hæfu starfsfólki í greininni og mun þörfin fara vaxandi á næstu árum. Um er að ræða störf á fjölbreyttum en oft sérhæfðum sviðum, til dæmis í líftækni, hönnun, gervigreind, verkfræði og forritun svo fátt eitt sé nefnt. Hér þarf átak í menntakerfinu en einnig að tryggja greitt aðgengi íslenskra fyrirtækja að alþjóðlegum sérfræðingum sem hingað vilja koma.

Hins vegar þarf Ísland að vera samkeppnishæft fyrir stór hugverkafyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni. Þetta er gert með því að einfalda regluverk og gera eftirlit skilvirkara, eyða óvissu og skapa fyrirsjáanleika í skattframkvæmd og tryggja sambærilega umgjörð í skattalöggjöf og samanburðarríki og helstu samkeppnislönd Íslands, til dæmis hvað varðar kauprétti fyrir starfsfólk fyrirtækja.

Það er því fagnaðarefni að fjármálaráðherra hafi lagt fram áform um frumvarp um breytingar á skattalögum til að liðka fyrir fjárfestingu í nýsköpun. Á sama tíma er það áhyggjuefni að forsætisráðherra hafi nú lagt fram frumvarp á Alþingi um rýni á erlendum fjárfestingum sem að mati SI gengur mun lengra en þörf er á með tilliti til þjóðaröryggishagsmuna. Nái frumvarpið óbreytt fram að ganga mun það hamla erlendri fjárfestingu á mörgum sviðum nýsköpunar.

Össur, Kerecis, Marel og CCP eru dæmi um fjögur hugverkafyrirtæki sem voru eitt sinn bara hugmynd en eru nú stöndug og öflug fyrirtæki sem skapa miklar útflutningstekjur fyrir Ísland og verðmæt og spennandi störf. Fjölmörg önnur dæmi mætti nefna en verðmætasta félagið í íslensku kauphöllinni í dag, Alvotech, gæti áður en langt um líður orðið verðmætasta útflutningsfyrirtæki Íslandssögunnar.

Útflutningstekjur hugverkaiðnaðar nálgast 300 milljarða

Hugverkaiðnaður byggir á fjárfestingu í rannsóknum og þróun og er mannauður helsta auðlind greinarinnar. Útflutningstekjur tækni- og hugverkaiðnaðar námu 265 milljörðum króna á síðasta ári. Þær voru um 48 milljarðar króna á umbrotaárinu 2008. Á þessu tímabili hafa útflutningstekjur Íslands á þessu sviði vaxið jafnt og þétt. Sígandi lukka er best, eins og máltækið segir.

Hugverkaiðnaður hefur mikla kosti fyrir þjóðarbúið. Greinin getur jafnað sveiflur í hagkerfinu en innbyrðis er hún einnig fjölbreytt og því ekki háð einni eða tveimur ytri breytum. Auðlindadrifið hagkerfi sem Ísland sannarlega hefur verið og verður stoð og kjarni hagkerfisins áfram þarf á slíku að halda. Ef ytri áföll verða getur öflugur hugverkaiðnaður reynst haldreipi til framtíðar.

Framleiðni og lífskjör

Framleiðni er meiri í hugverkaiðnaði en almennt gengur og gerist í hagkerfinu. Framleiðni er mælieining á verðmætasköpun á hverja vinnustund og því mikilvæg mælistika á stöðu og þróun hagkerfisins og framtíðarhorfur. Lífskjör ráðast af framleiðni, um það verður ekki deilt.

Fyrrverandi forstjóri Össurar orðaði þetta einna best í tímariti SI sem gefið var út á ári nýsköpunar hjá samtökunum árið 2020: „Það er einfaldlega þannig að ef Íslendingar ætla að halda uppi lífskjörum til langs tíma þá þurfum við að einbeita okkur að þeim geirum þar sem er mikil framlegð.“ Framlegð og framleiðni haldast í hendur.

Ef viðhalda á þeim góðu lífskjörum sem við búum við hér á landi þarf fjárfestingu í nýsköpun og mannauði. Veita stórum hugmyndum brautargengi og taka ákvarðanir af hugrekki og með framtíðarsýn að leiðarljósi. Uppskeran af fjárfestingu síðustu 15 ára í rannsóknum og þróun er að koma ríkulega fram í hagkerfinu um þessar mundir. Höldum áfram á sömu braut. Lífskjör okkar og afkoma til framtíðar velta á því.

Höfundur er sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI.