Eins og þekkt er orðið hefur Björn Leví Gunnarsson gert það að listgrein að senda misgáfulegar fyrirspurnir á ráðherra á Alþingi, t.d. um hvað klukkan sé, hvað höfuðborg Íslands heitir og hversu margir Íslendingar voru bitnir af hundum árið 2019.

Andrés Ingi Jónsson hefur greinilega lært af Birni Leví því hann lagði fram fyrirspurn til Svandísar Svavarsdóttur innviðaráðherra um hvort hún teldi koma til álita að tekið verði upp eitt sundkort sem gildi í allar laugar landsins.

Í svari ráðherra er bent á að það sé á forræði sveitarfélaga, á grundvelli sjálfsstjórnarréttar þeirra, að taka ákvörðun um hvernig gjaldtöku í sundlaugar þeirra sé háttað.

Hrafnarnir hvetja Andrés þó til að gefast ekki upp. Til dæmis mætti bæta sundkortinu inn í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og láta kort í borgarlínuna einnig gilda sem sundkort í allar laugar höfuðborgarsvæðisins.

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.