Í Viðskiptablaðinu í dag fjallar Óðinn um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
Þar er meðal annars bent á að ÁTVR upplýsir okkur á hverju ári um að verslunin selji börnum undir tvítugu áfengi - sem er lögbrot.
Einnig fjallar Óðinn um verulega hættu á mútum, en slíkt mál kom upp í ríkisáfengisversluninni sænsku árið 2003 þar sem 92 voru ákærðir - þar af 77 verslunarstjórar í ríkisversluninni.
Einnig er minnst á ræðu sem Steingrímur J. Sigfússon, stofnandi Vinstri grænna af öfund, hélt á Alþingi þar sem hann spáði fyrir um hrun þjóðlífsins yrði bjór seldur á Íslandi.
En aðalatriði var þó sú staðreynd að áfengissala ÁTVR er rekin með tapi og útlit fyrir að tapi stóraukist.
Vert er að benda á það að áfengisgjaldið hefur ekkert með rekstur ÁTVR að gera, það rennur í ríkissjóð og það greiða allir sem flytja inn áfengi til landsins.
Pistillinn nefnist Endalok ríkieinokunarverslunar og tap af áfengissölu.
Hér er stuttur hluti pistilsins en áskrifendur geta lesið hann hér í fullri lengd.
Tap af áfengissölunni
Það sem er nú hvað verst við núverandi ríkisverslun er að hún er rekin með tapi. Rekstur hennar er tvískiptur. Annar vegar sala áfengis og hins vegar tóbaks.
Reksturinn árið 2022 skilaði 877 milljónum króna í hagnað. En tekjurnar af tóbakssölunni námu 1.330 milljónum króna. Kostnaðurinn er hins vegar sáralítill því hlutverk ÁTVR í tóbakssölu er veigalítið.
Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum kemur afkoman af hvorri einingu ekki fram í ársreikningum stofnunarinnar.
En kunnáttumenn, og þá er vitanlega ekki átt við Lúðvík Bergvinsson, halda því fram að örfáir starfsmenn sinni tóbakshlutanum, en hann felst aðallega í lagerhaldi.
Kostnaðurinn af þeim hluta sé að hámarki 100 milljónir króna. Það þýðir að hagnaðurinn af tóbakssölunni var um 1,2 milljarðar í fyrra á meðan um 350 milljóna króna tap var á rekstri áfengissölunnar.
***
Gegn neytendum
Nettó tekjur ÁTVR af áfengissölu, álagningin, er 4,8 milljarðar. Þetta þurfa neytendur að greiða. Þessi kostnaður myndi verða miklu lægri ef ríkisverslunin væri lögð niður.
Þegar verð á vörum Costco eru borin saman við ÁTVR sést að verðið er 20-40% hærra hjá ÁTVR.
Ástæðan fyrir því er meðal annars sú að ÁTVR skiptir sér ekki af verðinu. Því ÁTVR er ekki fyrir viðskiptavinina heldur stjórnendurna, starfsmennina og heildsalana, sem í daglegu tali nefnast hilluplásshafar.
Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið pistilinn í fullri lengd hér.