Árið 2013 var skuldahlutfall Hafnarfjarðarbæjar 216%. Þá er átt við hlutfall skulda A og B hluta á móti tekjum. Þetta var sá ársreikningur sem Samfylking og Vinstri grænir lögðu fram síðasta sinn, en meirihlutinn féll vorið eftir.
***
Samkvæmt ársreikningi bæjarins fyrir árið 2019 var skuldahlutfallið komið niður í 159%. Það er lægsta skuldahlutfall Hafnarfjarðarbæjar frá árinu 1992, eða í 27 ár.
***
Óðinn telur þetta mikinn árangur hjá núverandi bæjarstjóra, Rósu Guðbjartsdóttur og hennar fólki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið leiðandi í meirihlutasamstarfi frá 2014, fyrst með Bjartri framtíð, sem nú er björt fortíð, og undanfarin ár með Framsóknarflokknum.
***
Þótt afrekið sé verulegt er Óðinn þeirrar skoðunar að 159% skuldahlutfall sé óviðunandi og vafalaust er bæjarstjórinn sammála því. Í raun eiga sveitarfélög ekki að skulda. Það er hugsanlegt til skamms tíma þegar brýnar stórframkvæmdir eru á dagskrá. En skuldir í dag þýða aldrei annað en hærra útsvar á morgun.
***
Það er ljóst að Covid-19 hefur haft neikvæð áhrif á rekstur Hafnarfjarðarbæjar líkt og flestra einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga í landinu. Að ríkinu ógleymdu.
***
Sala eignar
Í ljósi þeirra aðstæðna hefur meirihluti bæjarstjórnarinnar tekið ákvörðun um að kanna hvort áhugi leynist hjá einhverjum á að eignast 15,42% hlut bæjarins í HS veitum. Miðað við viðskipti, sem áttu sér stað með hlut í einum eiganda HS veitna fyrir rúmu ári, er hlutur Hafnarfjarðarbæjar minnst 3 milljarða króna virði.
***
Óðinn er reyndar sannfærður um að hluturinn sé mun meira virði í kjölfar mikilla vaxtalækkana í kjölfar Covid-19 og erfiðleika fagfjárfesta að finna vexti eftir að Seðlabankinn fór niður með stýrivexti á áður óþekktan stað í íslenskri vaxtasögu. Þetta er þó sagt með þeim fyrirvara að HS veitur hafi ekki rýrnað í virði vegna Covid-19, til dæmis vegna minni tekna eða tapaðra krafna. Það verður að teljast ólíklegt.
***
Delluhugmynd varaforseta
Óskar Steinn Jónínuson og Ómarsson, varaforseti Ungra jafnaðarmanna og íbúi í Hafnarfirði, hefur farið af stað með undirskriftalista þar sem krafist er að hugsanleg sala bæjarins á hlutnum fari í íbúakosningu.
***
Þetta er auðvitað allt saman ágætt hjá varaforsetanum nema vandfundnara er vitlausara mál til að senda í íbúakosningu. Öllu heldur að reyna að senda, því aðeins rúmlega þúsund manns hafa skrifað undir en það þarf meira en fjögur þúsund undirskriftir, líklega um 4.500, en kjörskráin er að líkindum ívið stærri en í forsetakosningunum.
***
Það vekur reyndar athygli að Ungir samfylkingarmenn, sem kalla sig Unga jafnaðarmenn, eru ekki meiri jafnaðarmenn en svo að þeirra fremstur meðal jafningja er kallaður forseti, ólíkt móðurskipinu sem lætur sér duga öllu alþýðlegri formann. Spurning samt hvort ekki sé meira viðeigandi að kalla forsetann aðalritara, svona eins og í Sovétríkjunum sálugu.
***
Verri niðurstaða
Meðal röksemda hins unga varaforseta, sem jafnframt starfar á leikskóla, er að bærinn hafi fengið 90 milljónir króna í tekjur á ári af HS veitum að meðaltali síðustu tíu árin. Það má vera rétt athugað, svo langt sem það nær, en í því felst samt algeng hugsanavilla, því þá er horft hjá óbeinum kostnaði af bundnu fé og hvernig nýta hefði mátt það betur eða með arðsamari hætti. Það á við í öllum rekstri, einkaaðilum sem hinu opinbera, en þó ætti það að vera sérstaklega augljóst hjá skuldum vöfðu sveitarfélagi eins og Hafnarfirði.
***
Ef hluturinn í HS veitum væri 3 milljarða króna virði og öllu söluandvirðinu hefði verið varið í niðurgreiðslu skulda fyrir 10 árum, þá hefði vaxtasparnaðurinn á ári numið 135 milljónum króna. Vaxtakostnaður var að meðaltali 4,5% (að tilliti teknu til gengismunar). Á 10 árum hefði afkoma Hafnarfjarðarbæjar þannig verið að meðaltali 45 milljónum króna betri en með því að eiga hlutabréf í HS veitum. Ef mismunurinn hefði verið jafnframt notaður til niðurgreiðslu skulda hefði afkoma bæjarins verið rúmum hálfum milljarði betri síðustu tíu árin en hún var.
***
Innviðirnir hverfa ekki
Önnur röksemd varaforsetans er að um innviði sé að ræða. Sú röksemd heldur ekki heldur vatni.
***
Starfssvæði HS veitna er á Suðurnesjum, í Árborg, í Vestmannaeyjum, í Hafnarfirði og í Garðabæ. Reykjanesbær og Hafnarfjarðarbær eru einu sveitarfélögin sem eiga hlut í félaginu á starfssvæði þess, en Reykjanesbær fer með meirihluta í félaginu.
***
Lög girða fyrir að hitaveitur, vatnsveitur og rafveitur, sem eru í einokunarstöðu, hækki gjaldskrár án sérstaks rökstuðnings. Í orkulögum er til dæmis að finna ákvæði um að eigandi hitaveitu geti ekki áskilið sér hærri en 7% arðsemi eiginfjár. Sem er lágt.
***
Í lögum um vatnsveitur eru ákvæði um hámarksálagningu vatnsgjalds. Í raforkulögum er fjallað um hver arðsemin megi vera af flutningi á raforku.
***
Að auki má benda varaforsetanum á að innviðir hafa þann eiginleika að hverfa ekki. Það er ekki hægt að aka þeim, sigla eða fljúga í burtu. Það eru því engar líkur á því að bæjarbúar njóti ekki áfram þessarar þjónustu, svona meðan þeir hafa enn áhuga á því að fara í bað og HS veitur halda sig í þeim bissness að selja heitt vatn, öldungis óháð eignarhaldinu.
***
Verðið skiptir öllu máli
Engin rök eru fyrir því að Hafnarfjarðarbær verði að eiga hlut í HS veitum. Ekki nokkur. Hið eina sem skiptir máli við sölu hlutarins er verðið. Það kemur ekki í ljós nema látið sé reyna á söluna.
***
Á því á varaforsetinn að hafa skoðun. Þá fyrst er hægt að meta hvort sala sé skynsamleg og Hafnfirðingum til hagsbóta.
Óðinn er skoðanapistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .