Hjörvar Hafliðason hefur um í rúman hálfan áratug haldið úti einum vinsælasta hlaðvarpsþætti landsins, Dr. Football, en hlaðvarpið er hluti af Doc Media, stærsta fjölmiðli Kópavogs. Nú hefur Dr. Football í samstarfi við orkudrykkinn Nocco gefið út nýja vörulínu. Línan samanstendur af inniskóm og stuttermabolum sem skarta merkjum Dr. Football og Nocco.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Hjörvar að leikmenn í Dr. Football söfnuðinum hafi lengi kallað eftir Dr. Football varningi og loks hafi tekist að svara því ákalli.

„Þessi hugmynd um sérhannaða inniskó hefur lengi verið í býgerð en ég var aldrei fullkomlega sáttur með þá liti sem stóðu til boða. Loksins eftir þriggja ára vinnu duttum við niður á þennan „white smoke“ lit og þá var ákveðið að kýla á þetta.“

Yfir þriggja ára tímabilið hafi hönnunarteymið á bakvið inniskóna, Jón Kári Eldon og Arnar Freyr Ársælsson, unnið myrkranna á milli við að fullkomna útlit inniskóna. Þessi metnaðarfullu og vönduðu vinnubrögð virðast hafa skilað sér því að sögn Hjörvars seldust inniskórnir í stærðum 42-46 upp á örfáum mínútum eftir að þeir voru settir í sölu inni á vefverslun Dr. Football í gær. Enn eru þó til skór í stærðum 38-41.

Dr. Football x Nocco sokkar fylgja frítt með pöntunum á inniskónum 16. og 17. apríl.
© Bullish Media (Bullish Media)

„Einhverjir kunna að furða sig á því að ekki hafi verið framleiddir fleiri skór í stærðum 42-46 en í þessum minni stærðum,“ segir Hjörvar. Það sé aftur á móti engin tilviljun því ákvörðunin um að panta jafn mörg eintök í hverri stærð eigi rætur sínar að rekja til fjölbreytileika- og inngildingarstefnu Dr. Football.

„Ég lagði ríka áherslu á að við yrðum með öflugan lager fyrir konur og minna fólk. Þetta var ekki endilega besta viðskiptaákvörðunin en það er mikilvægt að vera samkvæmur sjálfum sér og sínum gildum. Hjá Dr. Football eru allir jafnir og enginn elítubragur yfir einu né neinu.“

Liður í að fjölga tekjustoðum

Bolirnir hafi einnig vakið lukku en þegar þetta er skrifað eru enn til bolir í small, large og extra large en bolir í medium eru uppseldir.

Aðspurður segir Hjörvar nýju vörulínuna lið í að fjölga tekjustoðum Doc Media og að það standi til að fjölga þeim enn frekar. „Ég og Hemmi Hemm Hemm hjá Kemi [Hermann Guðmundsson, forstjóri Kemi], erum að vinna í derhúfulínu en sú vinna er bara komin nokkra mánuði á leið.“ Sökum þessa má reikna með að leikmenn þurfi að bíða þolinmóðir á hliðarlínunni um nokkurt skeið meðan á hönnunarferlinu stendur. Þá hefur Hjörvar í skoðun að grípa hin ýmsu tækifæri til að fjölga tekjustoðum en ekkert er enn sem komið er staðfest í þeim efnum.

Framan á bolnum er einkennismerki Dr. Football en aftan á honum er stórt Nocco-merki.
© Bullish Media (Bullish Media)

Hjörvar bendir á að margir í hans stöðu hefðu farið fyrr af stað í að selja varning í stað þess að bíða rólegir í rúmlega fimm ár. „Við vildum ekki fara af stað í þetta verkefni fyrr en við værum búnir að hanna hina fullkomnu vöru.“

Skoðar framleiðslu ofurkonujakka

Mikla athygli vakti er Hjörvar skartaði á sínum tíma sérsaumuðum jakka með Dr. Football merkinu á brjóstinu í anda hinna svokölluðu ofurkonujakka. Leikmenn í Dr. Football semfélaginu hafa margir kallað eftir því að jakkinn verði framleiddur í stærra upplagi og settur í almenna sölu. Ekki er loku fyrir það skotið að komi verði til móts við þær óskir en að sögn Hjörvars á hann í viðræðum við Egil Ásbjarnarson og Jökul Vilhjálmsson, eigendur Suitup Reykjavíkur.

„Ég get alveg uppljóstrað því fyrir þjóðina að þetta er í vinnslu en við sjáum til hvað verður. En rétt eins og í tilfelli inniskóna þá verður það verkefni ekki að veruleika fyrr en ég finn hinn fullkomna lit.“