Það er eins með hljóðfæraleikinn og skákina: þetta er allt í úlnliðnum og hafi maður eitt sinn lært eitthvað er lítið mál að halda áfram þar sem frá var horfið þó svo að áratugir hafi liðið frá því að síðast var tekið upp hljóðfæri.

Að sama skapi hefur mikið vatn runnið til sjávar þegar kemur að aðgengi að hljóðfærakennslu. Stafræn tækni og fjöldi kennsluforrita gerir að verkum að nýgræðingar eru fljótir að verða spilhæfir sjálfum sér til ánægju. Þetta og stytting vinnuvikunnar er því ágætis ástæða til þess að koma sér upp litlu heimahljóðveri til þess að hafa ofan fyrir fjölskyldunni. Hvatinn er ekki síðri þar sem nú eru uppi kynslóðir á unglingsaldri sem sækja tónlistarlegan innblástur til níunda og tíunda áratugar síðustu aldar gegnum þáttaraðir á borð við Stranger Things.

Hér á eftir koma nokkrar græjur sem koma sér vel þegar fólk vill nýta heimilistölvuna og sæmilega hátalara til þess að spila og taka upp tónlist. Að hljóðfærum undanskildum er öflug tölva það eina sem þarf til og forrit á borð við Garageband og Main Stage fyrir Makka eða eitthvað sambærilegt fyrir PC-tölvur.

Ég pant spila á gítar

Ef enginn bandarískur Stratocaster eða eftirlíking af ESPgíturum strákanna í Metallica er að rykfalla á heimilinu þarf að byrja á því að festa kaup á hljóðfæri. Ef fólk er að stíga sín fyrstu skref eða er að leiða ungmenni um ævintýraheim tónlistarinnar er hægt að finna fjölda ágætra gítara á góðu verði í hljóðfæraverslunum landsins.

Ibanez GRG121DXWNF El GTR

Hljóðfærahúsið í Síðumúla 45.990 kr

Það er óhætt að mæla með þessum Ibanez gítar fyrir alla þá sem héldu með vonda fólkinu og Stevie Vai í rimmunni í lokaatriðinu í kvikmyndinni Crossroads. Ibanez gítarar eru alltaf vandaðir óháð verðlagi og sker þessi týpa sig ekki út. Fjölhæfur bárujárnsgítar sem er afar fallegur að sjá. Mjög góð kaup.

Squire Sonic Mustang HH

Hljóðfærahúsið í Síðumúla 35.990 kr.

Squire er litli bróðir Fender-gítaranna og ágætur sem slíkur og hagkvæmur. Það er óhætt að mæla sérstaklega með Squire Esquire H sem fæst í Hljóðfærahúsinu sem byrjendahljóðfæri og jafnvel þá sem eru aðeins lengra komnir. Hálsinn er þægilegur og hljómurinn í gítarnum góður. Þrátt fyrir að gítarinn sé á kostakjörum er þetta skemmtilegt hljóðfæri sem er líklegt til að fylgja eigandanum lengi.

Jackson JS22 Dinky

Tónastöðin í Skipholti 43.400 kr.

60afe49f1e6c9e96bea3e9659be1f4abce93ada0
60afe49f1e6c9e96bea3e9659be1f4abce93ada0

Hvaða foreldri dreymir ekki um að heyra unglinginn sinn leika gítarsólóinn í Crazy Train með Ozzy Ozbourne? Þá er þessi Jackson rétti gítarinn. Hreint út sagt framúrskarandi gítar með þægilegum og hröðum háls sem hentar bæði byrjendum og lengra komnum. Frábær kaup.

Öxin tengd við tölvuna

Það er engin ástæða til að koma sér upp 100 watta Marshall-stæðu í stofunni ásamt aragrúa af hliðrænum fetlum til að „ná rétta sándinu“. Í raun og veru er það tillitssemi við fjölskylduna og nágrannana að gera það ekki.  Hægt er að velja um fjölda hljóðkorta sem gera mönnum kleift að tengja gítara, hljómborð og míkrafón við heimilistölvur sem allar ráða við ágæt hljóðversforrit sem lítið mál er að læra á.

Focusrite Scarlett Solo 4th Gen USB Audio Interface

Tónastöðin í Skipholti 26.500 kr.

Hér er ekki verið að flækja hlutina. Þú einfaldlega tengir Scarlett við tölvuna og gítar, míkrafón eða hljómborð við græjuna og töfraheimar hljóðversins ljúkast upp með aðstoð þar til gerðra forrita. Við tekur svo endalaus leit að gítarsándinu hans Billy Corgan eða hvað það er sem heillar hvern og einn. Tækið gerir mönnum kleift að taka upp hljóðritanir á ótal rásum og er eiginlega hin fullkomna afþreying fyrir miðaldra fólk sem leikur á hljóðfæri en á sér lítið félagslíf.

IK iRig HD2

Hljóðfærahúsið í Síðumúla 22.990 kr

Þetta er öllu meðfærilegri græja en Scarlett-hljóðkortið en gerir svipað gagn og býður upp á sömu möguleika. Óhætt er að mæla með henni sérstaklega fyrir þá sem hyggjast nota síma eða spjaldtölvur við að magna upp spilamennskuna. Hljóðfærinu er einfaldlega tengt við græjuna sem er svo tengd við snjalltækið og forrit eins og Garageband og Main Stage bjóða upp á ógrynni möguleika til skemmtunar og upptöku.

Akai MPK mini 3 USB controller

Hljóðfærahúsið í Síðumúla 18.990 kr.

Það er ekki nóg að vera gítarglamur í hljóðverðsforriti í tölvunni. Nauðsynlegt er að fullnýta alla valmöguleika og vera með hljómborð og gott bít ofan á allt hitt. Þá þarf svokallaða USB stýringu. Það er lítið hljómborð sem gerir notanda kleift að stýra hljóðfærum í þeim forritum sem notuð eru hverju sinni auk þess sem að þau auðvelda notenda að búa til takta og alls kyns slaufur.

Jólagjafahandbókin fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér og nálgast blaðið hér.