Leikfangafyrirtækið Mattel og matvælaframleiðandinn Heinz UK hafa tilkynnt nokkuð óhefðbundið samstarf en fyrirtækin tvö munu halda upp á 65 ára afmæli Barbie-dúkkunnar með bleikri sósu sem kallast Heinz Classic Barbiecue Sauce.

Sósan er blanda af vegan majónesi og barbecue-sósu og hefur Heinz UK einnig gefið í skyn á Instagram-síðu fyrirtækisins að það myndi framleiða tómatsósu sem ber heitið Tomato Kenchup.

„Barbie sigraði hjörtu Breta aftur og aftur á síðasta ári og eftir að hafa séð viðbrögðin á samfélagsmiðlum við þessari hugmynd vissum við að við yrðum að gera hana að veruleika. Við erum alltaf að leita nýrra leiða til nýsköpunar og erum himinlifandi með þetta samstarf við Mattel,“ segir Thiago Rapp, forstöðumaður hjá Heinz.

Sósan fær sinn einkennandi bleika lit með því að bæta við rauðrófuþykkni og stingur Heinz upp á því að hressa upp á hamborgarana eða dreypa bleiku sósunni yfir salatið.

Fyrstu 5.000 flöskurnar eru nú til sölu á vefsíðu fyrirtækisins en hún er eingöngu fáanleg í Bretlandi og á Spáni. Hins vegar segir Heinz að það gæti hugsanlega selt sósuna á öðrum mörkuðum í framtíðinni.