Fyrir þau sem eru með golfbakteríu á háu stigi og hafa gaman af ferðalögum og krefjandi golfvöllum eru hér fimm frægir keppnisvellir sem kjörið  er að spreyta sig á. Þótt þið séuð með lága forgjöf ættuð  þið ekki endilega að gera ykkur væntingar um að geta leikið þessa velli undir 100 höggum. Vallargjöldin eru ekki í lægri kantinum.

Harbour Town í Suður-Karólínu

Ef þú átt leið til Florida er vel þess virði að skella sér í bíltúr upp til Suður-Karólínu. Þar er að finna marga frábæra golfvelli, m.a. Harbour Town sem þekktastur er fyrir að þar er RBC Classic-mótið á PGA-mótaröðinni leikið á ári hverju, helgina eftir Masters-mótið. Scotty Scheffler klæddist köflótta jakkanum í ár, helgina eftir að hann klæddist þeim græna. Heimild til að leika völlinn fæst með því að kaupa gistingu á The Sea Pines Resort. Gott frí fyrir alvöru golfara sem eru tilbúnir að greiða $552 (77.500 kr.) fyrir hringinn. Það þekkja allir vitann á Harbour Town-vellinum.

Carnoustie í Skotlandi

Sagt hefur verið um Championship-völlinn í Carnoustie að hann sé „Golf’s greatest test“, eða mest krefjandi golfvöllur sem hægt er að leika. Fyrir 300 pund (52.500 kr.) geturðu komist að þvi hvort þessi staðhæfing er rétt. Glompan á myndinni er ekki sú eina sinnar tegundar á vellinum. Þess skal getið að kylfingurinn á myndinni komst upp úr í einu höggi og fékk par á holuna.

Golf Le National í París

Hver man ekki eftir stórsigri Evrópuliðsins í Ryder-bikarnum árið 2018? Albatros er stórkostlegur golfvöllur í Versölum, en Opna Franska mótið er leikið þar á hverju ári á DP-mótaröðinni. Völlurinn er gríðarlega krefjandi og erfiður. Gott er að vera með að minnsta kosti eitt dúsín af boltum í pokanum við upphaf leiks. Miðað við aðra velli er þessi tiltölulega ódýr, vallargjaldið aðeins 230€ (37.000 kr.)

Trump Turnberry í Skotlandi

Opna mótið (e. The Open), hið elsta og virtasta af risamótunum fjórum, hefur verið leikið á Ailsa-vellinum á Turnberry 1977 (Tom Watson), 1986 (Greg Norman), 1994 (Nick Price) og 2009 (Stewart Cink). Völlurinn er í eigu Donald Trump. Hann lét golfvallaarkitektafyrirtækið McKenzie & Ebert endurhanna völlinn og er það samdóma álit allra helstu sérfræðinga að gríðarlega vel hafi til tekist. Hringur á vellinum kostar 425 pund (74.500 kr.). Gjöf en ekki gjald

Valderrama á Spáni

Leikið var um Ryder-bikarinn á Valderrama árið 1997. Völlurinn er í einu orði sagt stórkostlegur. Frábær áskorun og gæði vallarins einstök. Vallargjaldið er litlar 500€ (75.000 kr.) og kylfusveinn til viðbótar kostar €100 (15.000 kr.). Mjög fáir rástímar eru í boði í viku hverri fyrir gesti og umferð um völlinn einstaklega lítil. Hverrar evru virði. Einstök upplifun.