Bílabúð Benna frumsýndi um helgina Porsche 911 Targa í sérstakri arfleifðarútgáfu. Bíllinn er aðeins framleiddur í 850 eintökum en mörg smáatriði í bílnum eru öðruvísi en í venjulegri útgáfu sem eiga að minna á uppruna bílsins.

Targa útgáfan er ekki blæjubíll, heldur mitt á milli harðtopps og blæjubíls.

Porsche frumsýndi þessa útgáfu árið 1965 en þá voru blæjubílar hættulegir ef þeim var velt. Targa var hins vegar með veltistöng rétt fyrir aftan ökumann og farþega og því mun öruggari. Þessi gerð bíla varð vinsæl á sjöunda áratugnum en líklegt þótti að bandarísk samgönguyfirvöld myndu banna blæjubíla vegna hættunnar þegar þeir ultu. Af því varð þó ekki.

Bíllinn var nefndur í höfuðið á götukappakstri á Sikiley, Targa Florio, sem var haldinn í nágrenni höfuðborgarinnar Palermo. Targa merki einnig skjöldur.