Sænska ríkið hefur sett gamla sendiherrabústað sinn í Washington D.C. til sölu á 19,5 milljónir dala, eða sem nemur 2,8 milljörðum króna. Húsið var byggt fyrir um 100 árum síðan fyrir David Lawrence stofnanda U.S. News & World Report.
Það er 1133 fermetrar að stærð, stendur á 2,8 hektara lóð, og er staðsett í American University Park hverfinu. Í húsinu eru sjö svefnherbergi, en það þarfnast verulegra endurbóta, að því er kemur fram í grein Wall Street Journal.
Sænska ríkið keypti húsið í kringum 1950, en síðan þá hafa tólf sænskir sendiherrar haldið fundi, samkomur og fjáraflanir í bústaðnum, að því er kemur fram í viðtali WSJ við Karin Olofsdotter núverandi sendiherra Svíþjóðar í Bandaríkjunum. Hún bjó í húsinu á árunum 2017-2019 og segir eignina frábæra en að staðsetningin hefði mátt vera betri. Eignin hafi ekki verið nógu miðsvæðis til að laða að upptekna og mikilvæga gesti í hádegis- eða kvöldmat.