Afleysingabílablaðamaður Viðskiptablaðsins fjallaði um nýjan Toyota Land Cruiser í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðins um einmitt bíla.

Með honum í ferð var Gísli Freyr Valdórsson fulltrúi Morgunblaðsins og hlaðvarpsstjarna úr Þjóðmálum og Páll Þorsteinsson sendiherra Toyota á Íslandi og fyrrum útvarpsstjarna.

Gísli sýndi á sér nýja hlið og óvænta í ferðinni og þótti nauðsynlegt að skrifa nokkur orð um það.

Gísla saga Valdórssonar

Þegar við lögðum af stað um morguninn var okkur sagt að við fengjum að keyra yfir á. Hjartað tók smá kipp minnugur svaðilfararinnar yfir Hafralónsá í ágúst 2011.

Vondu tíðindin voru að aðeins mátti fara einu sinni yfir ána. Þá hófst nokkur rekistefna um hvor okkar ætti að aka yfir ána, ég eða fulltrúi Morgunblaðsins.

Við Gísli höfum oft verið saman í bíl á rjúpnaskytterí en ég hafði aldrei litið á hann sem sérstakan torfærubílstjóra.

Við pöntum alltaf Land Cruiser enda veður válynd á Austurlandi á veturna. Eitt skiptið átti að láta okkur hafa slyddujeppa og ég fór skýrt yfir það að þessi bíll hentaði okkur bara alls ekki við starfsmann bílaleigunnar.

Sá virtist ekki skilja hversu brýnt þetta væri og mitt kurteislega tal, svo ég endaði með því að kviksetja þennan annars ágæta bíl – með orðum. Þá sagði Valdórsson í hálfu hljóði þetta væri eins og fjölskyldubíllinn.

Ekki jókst álit mitt á honum sem ökumanni við það. En ég hugsaði þó með mér að það væri kannski betra að Morgunblaðsmaðurinn eyðilegði einn af fjórum Land Cruiser 250 í Evrópu - frekar en ég.

Gísli kom þó með óvænt tromp. Hann hafði ekið ferðamönnum um nokkurra ára skeið á breyttum jeppum og margoft þverað hina óskaplegu Krossá í Þórsmörk.

Þannig að ég gaf mig, líkt og formaður ónefnds stjórnmálaflokks hefur gert í öllum samningaviðræðum í meira en áratug. Þegar var um korter í ána fór ég að spyrja ökuþórinn hvort hann hefði aldrei lent í neinum vandræðum á þessum ferðum sínum.

Hann hélt það nú. Lýsti því með mikilli nákvæmni þegar hann velti næstum Patrol jeppa í Krossá á gamlársdag með saklausum bandarískum hjónum.

Þau skriðu öll upp á þak bílsins og fyrir mikla heppni var einn bíll á leið um svæðið þennan dag sem bjargaði þeim.

Þarna lærði ég mína lexíu. Fara heldur að ráðum Winston Churchill og aldrei að gefast upp!

Ég rétt náði að hringja í tryggingarfélagið mitt að hækka líftrygginguna. Var þakklátur fyrir að vera ekki í viðskiptum við ríkistryggingarfélag, en ríkisstofnanir hafa þann leiða sið að svara ekki síma – í nafni hagræðingar.

Þegar komið var að ánni og farþegarnir tveir búnir að svitna nokkuð af ótta við ána og ökumanninn misstum við allir þrír andlitið. Áin var svo gott sem vatnslaus.

Líkt og með hina Gísla söguna – Súrsonar – er ef til vill aðeins fært í stílinn hér á undan.

Gísli er afbragðs bílstjóri og er ég ekki frá því að bíllinn hafi spólað örlítið minna í torfærunum en hjá mér. Þó bara örlítið.

Umfjöllunin birtist í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins sem kom út 8. maí.