Stærstu golfklúbbar landsins eru allir á höfuðborgarsvæðinu en Golfklúbbur Reykjavíkur, sem fagnar 90 ára afmæli á árinu, er langstærstur með um 3.600 félagsmenn. Næst stærstur er Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar með ríflega 2.600 félagsmenn. Þar á eftir kemur Golfklúbbur Mosfellsbæjar með tæplega 2.200 félagsmenn, þá Golfklúbburinn Keilir í Hafnarfirði með tæplega 1.900 félagsmenn og Golfklúbburinn Oddur í Urriðaholti er með tæplega 1600 félagsmenn. Fjallað erum golfíþróttina í sérblaðinu EV Golf, sem fylgdi Viðskiptablaðinu í dag.

Stærstu golfklúbbar landsins eru allir á höfuðborgarsvæðinu en Golfklúbbur Reykjavíkur, sem fagnar 90 ára afmæli á árinu, er langstærstur með um 3.600 félagsmenn. Næst stærstur er Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar með ríflega 2.600 félagsmenn. Þar á eftir kemur Golfklúbbur Mosfellsbæjar með tæplega 2.200 félagsmenn, þá Golfklúbburinn Keilir í Hafnarfirði með tæplega 1.900 félagsmenn og Golfklúbburinn Oddur í Urriðaholti er með tæplega 1600 félagsmenn. Fjallað erum golfíþróttina í sérblaðinu EV Golf, sem fylgdi Viðskiptablaðinu í dag.

Á landsbyggðinni er Golfklúbbur Akureyrar langstærstur með tæplega 1.000 félagsmenn. Á höfuðborgarsvæðinu eru líka tveir golfklúbbar með 9 holu golfvelli. Nesklúbburinn á Seltjarnarnesi er með um 900 félagsmenn en fleiri eru á biðlista um að komast inn í klúbbinn og má því segja að klúbburinn sé sá þéttsetnasti miðað við aðstöðu. Golfklúbburinn Setberg er í Hafnarfirðinum. Framtíð klúbbsins hefur verið óljós í nokkuð mörg ár, þar sem til stendur að byggja íbúðarhúsnæði á landsvæði klúbbsins. Félagsmenn í Setbergsklúbbnum eru 700.

Nýjasti völlurinn á höfuðborgarsvæðinu er á Kjalarnesinu, Golfklúbbur Brautarholts. Völlurinn opnaði árið 2012 sem 12 holu völlur. Unnið hefur verið ötullega að stækkun vallarins undanfarin ár og stefnt að því að opna hann sem 18 holu völl síðsumars eða í upphafi næsta árs. Félagsmenn í Brautarholti eru ríflega 900.

Enginn kemst að

Fullt félagsgjald í golfklúbb á höfuðborgarsvæðinu sem veitir ótakmarkaðan aðgang að golfvelli viðkomandi klúbbs kostar 84.000 krónur hjá Golfklúbbnum Setbergi, þar sem það er lægst, og 170.000 krónur hjá Golfklúbbnum Oddi þar sem það er hæst. Algengt árgjald hjá golfklúbbunum sem eru með 18 holu golfvelli er ríflega 150.000 krónur. Hjá Nesklúbbnum er árgjaldið 127.400 krónur. Vandamálið er bara það að allir þessir golfklúbbar eru fullir og enginn kemst að.

Á heimasíðu Golfklúbbsins Setbergs segir:

Ekki verður bætt við fleiri félögum fyrir þetta ár. Ef þú vilt vera skráður á biðlista fyrir næsta ár skaltu senda inn umsókn í klúbbinn. Aðilar sem sækja um eru skráðir í númeraröð á biðlista fyrir inngöngu í klúbbinn fyrir næsta ár. Frá árinu 2020 hefur kylfingum sem skráðir eru í golfklúbba fjölgað um 22%. Í árslok 2020 voru þeir 19800 en voru 24.200 í árslok 2023. Það er ánægjuefni fyrir golfíþróttina að á þessu tímabili er fjölgunin hlutfallslega mest í aldurshópnum 30-39 ára, en stærsti aldurshópurinn í golfklúbbunum er fólk á aldrinum 60-69 ára, ríflega 5.000 manns, en fast á eftir fylgir hópurinn 50-59 ára, þar sem iðkendur eru rétt tæplega 5.000.

Iss, kostar ekki neitt

Þrátt fyrir þessa stöðu hafa golfklúbbar á Íslandi stigið mjög varlega til jarðar með hækkanir á félags- og vallargjöldum. Hæsta árgjaldið sem er hjá Golfklúbbnum Oddi, 170.000 krónur, er alls ekki hátt gjald samanborið við það sem við sjáum í öðrum löndum þar sem seld er aðild að golfklúbbum með ótakmarkað aðgengi að golfvellinum. Hugmyndaauðgi golfklúbbanna um tegundir aðildar virðist mjög lítil. Í mörg ár hefur verið umræða um að félagsmenn greiði félagsgjald og svo vallargjald í hvert skipti sem leikið er, en enginn golfklúbbur hefur þorað að taka af skarið. Þannig myndu þeir sem nota mest greiða mest.

Golfklúbbur Brautarholts býður upp á Rauða aðild, sem innifelur fimm golfhringi og aðild að klúbbnum. Sniðug vara sem hefur reynst vinsæl hjá þeim sem vilja vera í golfklúbbi en leika ekki mikið. Golfklúbbur Suðurnesja býður þeim sem eru félagsmenn í öðrum golfklúbbum og búa utan póstnúmera á Suðurnesjum fulla aðild að klúbbnum fyrir 30.000 krónur. Þannig getur séður golfiðkandi á höfuðborgarsvæðinu keypt sér Rauða aðild hjá GBR fyrir 38.900 og fengið fulla aðild í GS fyrir 30.000. Sá aðili er vel settur fyrir 68.900 krónur.

Á höfuðborgarsvæðinu eru reknar a.m.k. fjórar golfverslanir sem hafa upp á allt að bjóða sem kylfinginn vantar. Því til viðbótar eru þrjár verslanir sem sérhæfa sig í golffatnaði eingöngu. Allir stærstu golfklúbbarnir reka golfverslanir í einhverri mynd við golfvelli sína.

Glæsilegur golfvöllur í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum.
Glæsilegur golfvöllur í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum.

Samkvæmt grófri könnun fóru um 4.000 manns í skipulagðar golfferðir til sólarlanda á vegum ferðaskrifstofa bara núna í vor. Þá eru ótaldir allir þeir sem fóru í golfferðir á eigin vegum og þeir sem eiga eftir að fara í haust. Ekki er auðvelt að greina golfiðkun þeirra Íslendinga sem hafa vetursetu á suðlægum slóðum en hún er veruleg. Algengt vallargjald á golfvelli á Spáni og Portúgal er 14-25.000 krónur fyrir einn 18 holu hring. Oftar en ekki er leigður golfbíll með, sem kostar um 7.500 krónur á 18 holu hring.

Með því að fletta í gegnum ársreikninga golfklúbbanna á Íslandi sést að greidd félagsgjöld til golfklúbbanna og vallargjöld eru vel á þriðja milljarð. Meðalverð á skipulagðri golfferð er um 300.000 krónur og víst að golfferðamarkaðurinn stendur vel undir öðrum þremur milljörðum. Þá eru eftir golfverslanirnar, golfhermarnir, 19. holan (veitingastaðir golfklúbbanna) og fleira sem til fellur. Golfmarkaðurinn á Íslandi veltir milljörðum en enginn veit með fullri vissu hversu margir þeir eru.

Svo vísað sé í ónefnda heimildarmenn úr fjölmennasta aldursflokki golfiðkenda;

Sá fyrri sagði: „Við hjónin eyðum um tveimur milljónum á ári í golfiðkun okkar. Þeim peningum er vel varið,“ og hinn sagði: „Iss, golf kostar ekki neitt, hefurðu ekki verið í hestamennsku?“ og hló.

Uppbygging af skornum skammti

Það undarlega í golfheiminum á Íslandi er að þrátt fyrir þessa miklu fjölgun iðkenda hefur lítil sem engin uppbygging átt sér stað í golfvallaaðstöðu á síðasta áratug. Golfklúbbur Brautarholts hóf starfsemi árið 2012, Korpúlfsstaðavöllur hjá Golfklúbbi Reykjavíkur var stækkaður um 9 holur árið 2013 og varð þá 27 holu völlur. Golfklúbburinn Kjölur í Mosfellsbæ (sem varð Golfklúbbur Mosfellsbæjar árið 2015 með sameiningu við Golfklúbb Bakkakots) lauk við stækkun Hliðavallar í 18 holur árið 2011.

Frá árinu 2012 þegar Brautarholt, nýjasti golfvöllurinn á höfuðborgarsvæðinu, opnaði hefur félagsmönnum í golfklúbbunum á Íslandi fjölgað um 8.000 iðkendur, eða 45%. Til að setja þetta í samhengi hefur félagsmönnum í golfklúbbum á Íslandi á þessum tíma fjölgað um sem nemur ríflega tvöföldum Golfklúbbi Reykjavíkur, sem er stærsti golfklúbbur landsins og býður upp á 18 holu golfvöll í Grafarholti og 36 holu golfvöll á Korpúlfsstöðum.

Fyrirséð er eins og áður sagði að Golfklúbbur Brautarholts stækkar í 18 holur fljótlega. Golfklúbburinn Oddur vinnur að stækkun í 27 holur í Urriðaholti. Golfklúbburinn Leynir á Akranesi stefnir að stækkun í 27 holur. Það er ekki að ástæðulausu að rástímar á höfuðborgarsvæðinu eru gulls ígildi. Golfklúbbur Akureyrar er einnig mjög þétt setinn og vinsæll hjá kylfingum.

Hólmsvöllur í Leiru er vinsæll vorvöllur.
Hólmsvöllur í Leiru er vinsæll vorvöllur.

Golfklúbbar í útjaðri höfuðborgarinnar, s.s. í Þorlákshöfn, Sandgerði, Akranesi og Leiru, njóta góðs af golfþyrstum höfuðborgarbúum á vormánuðum, en þegar líður á sumarið virðast íbúar höfuðborgarinnar síður tilbúnir að leggja á sig bílferð austur fyrir fjall eða á Suðurnesin. Það setur líka strik í reikninginn að óvíst er hvað verður um Húsatóftavöll í Grindavík, en hann hefur verið mjög vinsæll vorvöllur.

Fyrir utan þá ríflega 24.000 sem kjósa að greiða félagsgjöld í golfklúbba er einnig fjöldi golfiðkenda sem kýs að greiða ekki félagsgjöld í golfklúbba. Ekki er vitað með neinni vissu hversu mörg starfsmannafélög og fyrirtæki reka sína eigin golfklúbba sem í gegnum fyrirtækjasamninga við golfklúbba hafa ýmiss konar aðgang að golfvöllum landsins. Þannig golfklúbba er að finna í öllum helstu stórfyrirtækjum landsins. Skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt að golfiðkendur á Íslandi eru mun nær því að vera 50.000 en 24.000.

Umfjöllunin birtist í sérblaðinu EV Golf, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta skoðað blaðið hér.