Ýmis einkafyrirtæki hafa opnað golfhermastöðvar á síðustu árum. Þar á meðal er Golfhöllin sem staðsett er úti á Granda og opnaði í október 2021.

Golfhöllin verður með fasta opnun frá 1. september næstkomandi til 30. júní á næsta ári, frá morgni til kvölds og með starfsmenn. Á öðrum tíma árs er einblínt á golfkennslu, en þá geta hópar pantað tíma utan tímabilsins eftir samkomulagi.

„Ragnhildur Sigurðardóttir, golfkennari og margfaldur Íslandsmeistari í golfi, er með sína kennslu í Golfhöllinni. Þar fyrir utan getur hvaða golfkennari sem er fengið aðstöðu hjá okkur til að kenna.“ segir Pétur Björnsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Golfhallarinnar.

Pétur segir að golfkennsla í dag sé nær öll komin innandyra í hermana. Þeir séu tilvaldir fyrir byrjendur sem séu að prófa sig áfram í íþróttinni.

„Með golfhermana geturðu séð á myndbandi nákvæmlega hvernig sveiflan þín er, hvernig þú hittir boltann og hvað þú þarft að laga. Hér erum við til dæmis með tvo sérútbúna kennslubása og þar eru myndavélar bæði fyrir aftan þig og á hlið auk viðbótarlýsingar.“

Golfklúbbar hérlendis hafa flestir fjárfest í golfhermum fyrir félagsmenn sína og til golfkennslu. Nesklúbburinn á Seltjarnarnesi er með inniæfingaaðstöðu á Austurströnd sem ber nafnið Nesvellir. Þar eru sex TrackMan-golfhermar þar sem hægt er að leika marga af frægustu golfvöllum heims.

Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar (GKG) er með 22 herma á tveimur stöðum og er umsvifamestur í golfhermamarkaðnum á Íslandi.

Þá eru Golfklúbbur Reykjavíkur (GR), Golfklúbbur Akureyrar, Golfklúbbur Vestmannaeyja, Golf­klúbbur Borgarness og Golfklúbbur Grindavíkur allir með herma, svo einhverjir séu nefndir.

Nánar er rætt við Pétur Björnsson, stofnanda og framkvæmdastjóra Golfhallarinnar, í Viðskiptablaðinu sem kom út 7. júlí síðastliðinn.