Bresk-gríski bílahönnuðurinn Sir Alexander Arnold Constantine Issigonis, eða Alec Issigonis eins og flestir kölluðu hann, var merkasti bílahönnuður 20. aldarinnar.

Hann fæddist í Smyrna í gamla Ottómanveldinu, nú Tyrklandi, árið 1906. Faðir hans, farsæll og auðugur skipasmíðaverkfræðingur, var af grískum uppruna en var með breskt vegabréf. Árið 1922 fór fjölskyldan frá Tyrklandi til Englands þar sem allir Bretar voru gerðir útlægir úr landinu. Faðir hans lifði hins vegar ekki af ferðina.

Eftir lát hans fluttist Alec og móðir hans, Hulda Prokopp, til Lundúna. Hún var frá Bæjaralandi en náfrændi þeirra var Bernd Pischetsrieder, forstjóri BMW árin 1993-1999 og forstjóri Volkswagen frá 2002 til 2006.

Skissa handteiknuð af Alec af upprunalega Mini-num.
Skissa handteiknuð af Alec af upprunalega Mini-num.

Náði ekki stærðfræðinni

Alec átti sér þann draum að verða bifreiðaverkfræðingur frá unga aldri. Frá 1925-1928 nam hann verkfræði við Battersea Polytechnic í London. Hann skaraði fram úr í vélrænni teikningu en féll þrisvar á stærðfræðiprófum.

Alec lauk námi í Háskólanum í Lundúnum og hóf störf hjá breska reiðhjóla- og bílaframleiðandanum Humber, sem var keyptur af Chrysler árið 1967. Síðan þá hefur merkið verið í dvala. Meðfram störfum keppti Alec í kappakstri.

Árið 1936 færði hann sig yfir til Morris mótorsmiðjunnar. Árið 1952 varð British Motor Corporation (BMC) til með sameiningu Morris og Austin. Þá færði Alec sig til Alvis Cars þar sem hann þróaði götusportbíl sem aldrei var framleiddur.

Síðasta útgáfan af Mini var framleidd árið 2000.
Síðasta útgáfan af Mini var framleidd árið 2000.

Olíukreppan 1956

Í lok árs 1955 var Alec ráðinn aftur til hins sameinaða félags BMC og kom þar að þróun þriggja bíla. Öllum hugmyndum um þá var fleygt á hauganna í kjölfar olíukreppunnar.

Í seinni heimsstyrjöldinni réðu Bretar yfir Súesskurðinum, sem var mikilvæg siglingarleið fyrir olíu, en það breyttist í Súesdeilunni svokölluðu árið 1956. Bretar misstu yfirráðin og olíukreppa hófst.

Lítill bíll með miklu plássi

Fyrir Alec var þetta tækifærið til að sanna sig. Verkefnið var smábíll með miklu plássi að innan, sæti fyrir fjóra farþega, óaðfinnanlegir aksturseiginleikar, sparneytinn og mjög viðráðanlegt verð. Það er nákvæmlega það sem hann gerði.

Árið 1959 fæddist Mini. Hann kallaðist Morris Mini Minor og Austin Seven, en var fljótt nefndur Austin Mini.

Mini var framleiddur til ársins 2000, eða í 41 ár. Hann var framleiddur í 5,3 milljónum eintaka og er mest seldi bíllinn í sögu breskrar bílasmíði.

Alec Issigonis og Enzo Ferrari.
Alec Issigonis og Enzo Ferrari.

Ferrari var hrifinn af Mini

Mini átti fljótt aðdáendur um allan heim. Meðal þeirra voru allir Bítlarnir fjórir, Twiggy og Steve McQueen.

Meðal þeirra sem voru hrifnir af Mini var sjálfur Enzo Ferrari. Hann átti í það minnsta þrjá slíka yfir ævina og er Alec sagður hafa afhent honum einn þeirra. Ferrari er sagður hafa sagt Mini einn af sínum uppáhaldsbílum.

Mini er talinn vera einn merkilegasti bíll 20. aldarinnar. Alec var aðlaður af Elísabetu drottningu árið 1969, þá helst vegna hönnunar hans á Mini-num.

Umfjöllunin birtist í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.