Lava Show opnaði að Fiskislóð 73 á Grandanum þann 10. nóvember síðastliðinn, en haldin hefur verið úti sambærileg sýning í Vík frá árinu 2018. Hjónin Júlíus Ingi Jónsson og Ragnhildur Ágústsdóttir eru stofnendur Lava Show og eru í skýjunum með opnun Lava Show í Reykjavík.

„Það hefur verið draumur okkar lengi að stækka við okkur og færa þessa einstöku eldgosaupplifun til sem flestra. Nú er Lava Show í Vík og í Reykjavík og við gætum ekki verið sáttari við útkomuna. Það er orðið ansi langt síðan að hraun rann síðast í Reykjavík og við getum ekki beðið eftir að leyfa gestum okkar að upplifa sjónarspilið sem rauðglóandi hraunið býður upp á í öruggu og fallegu rými,“ segir Ragnhildur.

Með sýningunni renni hraun í stríðum straumum í Reykjavík í fyrsta sinn í nær 5 þúsund ár, eða allt frá því að Elliðaárdalshraun myndaðist fyrir 4.800 árum. Talið er að Elliðaárdalshraun hafi runnið úr Brennisteinsfjöllum á sínum tíma en hraunið, og svæðið þar í kring, er í dag ein vinsælasta útivistarperla höfuðborgarsvæðisins.

Á sýningu Lava Show er hraun brætt upp í 1100°C og hellt inn í sýningarsal fullan af fólki. Fyllsta öryggis er gætt.

SpaceX, Blue Origin og Lava Show

Öllu er tjaldað til í húsakynnum Lava Show á Grandanum. Má þar helst nefna myndavegg úr stuðlabergi, sem vísar í þær sérstæðu hraunmyndanir sem víða finnast í íslenskri náttúru og sérhannaðan og sérsmíðaðan bræðsluofn sem pantaður var frá bandaríska fyrirtækinu Fibersim. Fibersim smíðar meðal annars eldflaugahluti fyrir SpaceX og Blue Origin, en hið síðarnefnda er fyrirtæki auðjöfursins Jeff Bezos.

„Já, kúnnalistinn er sem sagt SpaceX, Blue Origin og Lava Show,“ segir Júlíus og brosir. „Það er ekki leiðinlegt að tilheyra þeim hópi,“ bætir hann við, en bræðsluofninn gengur fyrir metani sem Sorpa framleiðir úr lífrænum úrgangi og hraunbræðslan er því eins umhverfisvæn og völ er á.“