Íslendingar eru þekktir fyrir að vera mikil fiskiþjóð sem nýtur þess einnig að borða pizzur, en sjaldan enda þessar tvær ólíku matartegundir saman á sama diski.

Ítalir hafa hins vegar sett fisk ofan á brauð í næstum 2.000 ár. Áður en pizzan var fundin upp þar í landi var venja að setja ansjósur á brauð og auk kryddjurta notuðu Rómverjar til forna bragðmiklar fiskimauksósur eins og garum til að bragðbæta mat.

Það var því skiljanlegt að þegar fyrsta pizzan var bökuð í ítölsku borginni Napólí á 18. öld hafi ansjósur endað ofan á þær pizzur. Fiskurinn var ekki aðeins ódýr heldur var hann fáanlegur alls staðar við Miðjarðarhafið og tilvalinn til að bæta söltuðu og kjötmiklu bragði við tómatbragð pizzunnar.

Þessi aldagamla hefð er einnig ástæðan fyrir því að það er enn hægt að fá ansjósur á pizzur í dag þrátt fyrir að áleggstegundin sé ekki mjög vinsæl. Kostnaðurinn er mjög lár og þar sem ansjósur eru geymdar í dósum eru þær með langt geymsluþol.

Þegar Ítalir byrjuðu svo að flytja til Bandaríkjanna seint á nítjándu öld tóku þeir pizzurnar með sér. Ítalir sem ráku bakarí seldu svo pizzurnar til verksmiðjustarfsmanna á götum Bandaríkjanna en notuðust enn við hefðbundnu uppskriftina.

Á öðrum og þriðja áratug seinustu aldar byrjaði millistéttin að stækka og vildi fólk bragða meira af framandi mat. Til að mæta þessari eftirspurn opnuðu pizzastaðir víða um landið og byrjuðu að bjóða upp á alls kyns áleggstegundir eins og grænmeti og svínakjöt.

Eftir því sem árin liðu voru ansjósur ekki lengur eins vinsælar og eftir stríð fóru tímarit meira að segja að hvetja fólk til að gera sínar eigin pizzur heima með svissneskum osti, lauk og lifrarpylsu. Ansjósur fást þó enn fyrir þá sem vilja borða eins og Ítalir til forna.