Kia EV9, fyrsti rafknúni jeppi suðurkóreska bílaframleiðandans, var kynntur með pomp og prakt fyrir bílablaðamönnum í Frankfurt nýverið. Bílablaðamaður Viðskiptablaðsins var á viðburðinum í Frankfurt og skoðaði þennan nýja og tignarlega jeppa sem verður flaggskip suðurkóreska bílaframleiðandans.

EV9 er byggður á hinum byltingarkennda E-GMP undirvagni (Electric Global Modular Platform) og veitir kraftmikil afköst. Staðfest drægi er yfir 541 km samkvæmt WLTPprófunum. Með ofurhraðri 800 volta hleðslugetu er hægt að fylla á EV9-rafhlöðuna með hleðslu sem nær 239 km drægi á um það bil 15 mínútum.

Long Range-útfærslan með afturhjóladrifi er knúin af 150 kW rafmótor sem skilar bílnum hröðun upp á 9,4 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km/klst. EV9 í staðalútfærslu með afturhjóladrifi er einnig knúinn af einum rafmótor, öflugri 160 kWh útfærslu sem skilar hröðun úr 0 í 100 km/klst. á 8,2 sekúndum.

Sérstök slökunarsæti

Kia EV9 er með þremur sætaröðum. Í fyrstu sætaröðinni eru sérstök slökunarsæti sem tryggja þægilega hvíldarstöðu. Í annarri sætaröðinni er boðið upp á fjórar sætalausnir, í fyrsta skipti í rafbíl, þar á meðal þriggja sæta bekk, grunnútfærslu, slökunarútfærslu og tveggja sæta snúningssæti, og þannig má uppfylla mismunandi þarfir viðskiptavina.

Þegar EV9 er búinn slökunarsætum í annarri sætaröð geta farþegar í fyrstu og annarri sætaröð hallað sér saman á meðan bíllinn er í hleðslu. Þegar snúningssæti eru valin er hægt að snúa sætum í annarri sætaröð um 180 gráður til að auðvelda spjall við farþega í þriðju sætaröð. Hleðslutengi og glasahaldarar eru fyrir farþega í þriðju sætaröð.

Nánar er fjallað um Kia EV9 í fylgiritinu Bílar.