Nýi Kia Niro rafbíllinn hlaut hið virta Gullna stýri, sem almennt er talið mikilvægasta viðurkenning sem bílum getur hlotnast í Þýskalandi. Kia Niro, sem hlaut mikið lof þegar hann var kynntur til sögunnar fyrr á þessu ári, fékk Gullna stýrið 2022 í flokki nettra sportjeppa, þar sem samkeppnin er geysihörð.

Kia vann tvöfaldan sigur því tengiltvinnbíllinn Kia Sportage hafnaði í öðru sæti og Volkswagen Taigo varð í þriðja sæti.

Dómnefnd Gullna stýrisins dásamaði einnig nýja Kia EV6 GT og veitti þessum kraftmikla rafknúna lúxusjeppa Kia annað sætið í flokki meðalstórra bíla og lúxusbíla, þar sem Nio ET7 hreppti fyrsta sætið og Mercedes-Benz EQE það þriðja.

Niro rafbíllinn, Sportage Plug-in Hybrid og EV6 GT voru meðal 47 nýrra bíla í alls sjö flokkum sem ritstjórnir þýsku tímaritanna AUTO BILD og Bild am SONNTAG tilnefndu.

Lesendur völdu þrjá úrslitabíla úr hverjum flokki áður en 21 manns dómnefnd sérfræðinga prófaði hvern bíl ítarlega í lokaumferð keppninnar á DEKRA Lausitzring-kappakstursbrautinni í Þýskalandi, þar sem sigurvegararnir voru valdir.