Dr. Erla Björnsdóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri Betri svefns, en hún kynnti nýlega til sögunnar nýtt snjallforrit, She-Sleep, sem er fyrsta svefnforritið í heiminum sem er eingöngu fyrir konur.

Erla segir svefnþörf og svefnvanda vera ólíkan eftir kynjum. Konur séu í 40% meiri hættu á svefnleysi en karlar og á ákveðnum skeiðum lífsins sé áhættan mun meiri.

„Meirihluti kvenna á breytingaskeiði er með svefnvanda, hormónin hafa mikil áhrif. Við erum líka að sjá miklu meiri streitu hjá konum og það skilar sér beint í svefnleysinu. Almennt séð þurfa konur meiri svefn en karlar, og konur upplifa frekar slæmar afleiðingar af því að missa svefn.“

Hún segir að nálgast þurfi viðfangsefnið á ólíkan hátt eftir kyni og fræðsla um hormónakerfið sé mjög gagnleg.

„Í SheSleep erum við með fræðslu um hvað er að gerast á hverju skeiði hringsins og hvaða áhrif það hefur. Um leið og þú hefur meiri upplýsingar um líkamlegt ástand þitt getur þú aðlagað þig að því. Um leið og þú veist hvað það þýðir að vera á blæðingum, að orkan sé minni, þörf sé á meiri hvíld og að meiri líkur séu á að slasa sig við æfingar, þá er hægt að forgangsraða á annan hátt en vanalega.“

Viðtalið við Erlu Björnsdóttur er að finna í nýjasta tölublaði Eftir vinnu. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.