Hefð er fyrir því að fólk strengi áramótaheit og ætli sér að ná alls konar sigrum og áföngum þegar nýtt ár gengur í garð. Líkamsræktarþjálfarinn Anna Eiríksdóttir sem nýlega opnaði glæsilega heimasíðu um þjálfun og hollan lífsstíl gefur lesendum sínum góð og nytsamleg ráð inn í árið þegar kemur að heilsutengdum ármótaheitum;

-Settu þér markmið fyrir árið en settu þér einnig smærri markmið fyrir hvern mánuð fyrir sig.

Ekki setja líf þitt á hvolf því þú ætlar þér um of, nauðsynlegt er að gera litlar raunhæfar breytingar á hreyfingu og mataræði því annars eru meiri líkur á því að þú gefist upp eftir fyrsta mánuðinn.

Ef þú hefur ekki hreyft þig reglulega í langan tíma þá er nauðsynlegt að fara rólega af stað og að þjálfunin sé markviss, farðu í göngutúra, skelltu þér á námskeið, farðu til einkaþjálfara eða æfðu með mér heima í stofu, sama hvað þú velur þá er mikilvægt að fara rólega af stað.

Ef mataræðið þitt hefur farið algjörlega úr böndunum yfir hátíðarnar þá skaltu reyna að snúa blaðinu við en gott ráð er t.d að taka út sykurinn á virkum dögum, minnka skammtana og borða vel af ávöxtum og grænmeti, þetta hjálpar þér að snúa blaðinu við. Það er mjög erfitt og í rauninni ekki vænlegt til árangurs að fara á einhvern kúr sem er uppfullur af boðum og bönnum.

Mundu eftir litlu sigrunum, nauðsynlegt er að verðlauna sig á góðan hátt þegar hverju markmiði er náð en mér finnst æðislegt að gera vel við mig með því að fara t.d. í nudd, kaupa mér eitthvað fallegt eða gera eitthvað skemmtilegt.

Hvernig væri að prófa eitthvað sem þú hefur aldrei prófað áður!

Sama hvaða markmið eða áramótaheit þú setur þér þá hef ég fulla trú á því að þú getir náð því, þú þarft að trúa því líka og þá ætti ekkert að stoppa þig.

2018 er árið þitt!

Anna hafði gengið með hugmynd að vefsíðunni í maganum í nokkuð ár en henni fanst mikil vöntun á góðri þjálfun á vefnum fyrir íslenskar konur. „Á síðunni minni býð ég m.a. upp á sex vikna metnaðarfulla fjarþjálfun fyrir konur sem hægt er að gera hvar sem er. Kosturinn við æfingarnar sem ég býð upp á er sá að að ég fylgi þér í gegnum hverja einustu æfingu frá upphafi til enda sem er ótrúlega hvetjandi, auk þess gef ég valkosti í öllum æfingum sem eru mjög krefjandi sem auðveldar þér að fylgja mér á þínum forsendum.
Við eigum aðeins einn líkama og það er ótrúlega mikilvægt að hugsa vel um hann. Hreyfing ætti að vera hluti af lífi allra sem hafa tök á því að hreyfa sig og langar mig að hjálpa konum að koma hreyfingu og hollari venjum inn í sinn lífstíl á sem þægilegastan máta,“ segir Anna Eiríks.