Bílaframleiðandinn MG Motor sýndi úrval nýrra og spennandi fólksbíla á alþjóðlegu bílasýningunni sem fór fram á dögunum í Genf, eða alls tíu bíla. Meðal þeirra var ný útgáfa af hinum vinsæla MG3 sem MG kynnir nú til leiks í Hybrid-útgáfu, en þeim þarf ekki að stinga í samband.

MG3 hefur til þessa eingöngu verið í boði á Bretlandsmarkaði en verður nú einnig í boði í fleiri löndum álfunnar í nokkrum mismunandi útfærslum, sem allar samnýta Hybrid aflrásina með stærri rafhlöðu, 1,5 l fjögurra strokka og allt að 102 hestafla bensínvél auk enn öflugri rafmótors eða 100kW sem framleiðir 136 hestöfl.

Nýr MG3 er einnig stærri og rúmbetri en fráfarandi gerð MG3 en hefur þó jafn lágt fótspor og fráfarandi gerð. Sem dæmi um snerpu MG3 má nefna að hann er einungis 8 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km/klst., og 5 sekúndur úr 80 km hraða í 120 km/klst. og eyðir aðeins 4,4 l/100 km að meðaltali samkvæmt mælistaðlinum WLTP. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um hvort MG3 bætist í flóru fjölbreytts úrvals rafbíla hjá BL ehf.

Auk MG 3 frumsýndi MG rafknúna sportbílinn MG Cyberster, sem margir á meginlandinu hafa beðið eftir með óþreyju. Cyberster er með tveimur rafmótorum og fjórhjóladrifi og er bíllinn sá kraftmesti og snarpasti sem MG hefur framleitt til þessa enda 544 hestöfl og aðeins 3,2 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km/klst. Cyberster með einum rafmóti verður einnig í boði og er sú útgáfa 5,2 sekúndur úr 0-100 km/klst. Samhliða kynningu á Cyberster kynnir framleiðandinn nýja og spennandi liti og litaáferðir en áður með Cyberster-gerðunum.

Þá frumsýndi MG einnig sportbílinn MG7 Fastback og MG9 Saloon (Sedan), sem vitnisburð um sístækkandi flóru mismunandi gerða vandaðra lúxusbíla sem framleiðandinn getur boðið Evrópubúum að velja úr. Að auki eru í bás MG í Genf tveir rafbílar frá IM (Intelligent Mobility), þar sem IM L6 og IM L7 eru til sýnis. L6 er innan við 3 sekúndur í 100 og drægnin frá 600-800 km eftir útfærslum. Varðandi IM L7 þá er hann m.a. fyrsti rafbíll heims sem hægt er að hlaða með þráðlausu neti. Þess má að lokum geta að IM er í eigu framleiðandans BEV sem aftur er í eigu móðurfyrirtækisins SAIC Motor, eiganda MG. Fyrirhugað er að IM komi á Evrópumarkað á næsta ári.