Íslenska karlalandsliðið í handbolta setur markið hátt fyrir komandi heimsmeistaramót sem haldið er í Svíþjóð og Póllandi. Kjartan Vídó Ólafsson, markaðsstjóri HSÍ, segir mikla eftispurn meðal Íslendinga eftir miðum á mótið, en HSÍ hefur nú þegar selt tæplega tvö þúsund miða á leikina þrjá í riðlinum.

„Það er mikil spenna í leikmönnum sem og hjá okkur sem störfum í kringum mótið. Við höfum selt um 600 miða á leikinn gegn Portúgal. Þá höfum við selt rúmlega 800 miða á laugardagsleikinn gegn Ungverjum og um 450 miða á síðasta leikinn í riðlinum gegn Suður-Kóreu.“

Leikir íslenska liðsins fara allir fram í Svíþjóð, en riðlakeppnin verður leikin í Kristianstad dagana 12.-16. janúar. „Þetta er frekar lítil höll í Kristianstad og margt sem spilar með okkur Íslendingum fyrir leikina í riðlinum. Tveir leikmenn liðsins, þeir Ólafur Guðmundsson og Arnar Freyr Arnarsson, hafa meðal annars spilað fyrir IFK Kristianstad. Síðan er hótelið og bærinn vel merktur íslenska liðinu. Það má segja að við séum á heimavelli og við erum með fullt af Íslendingum á bak við okkur.“

Þrjár uppseldar vélar frá Icelandair

Icelandair hefur verið í samstarfi við HSÍ í kringum handboltalandsliðið í nærri fjóra áratugi. Uppselt er í þrjár vélar félagsins til Gautaborgar fyrir leikina í milliriðlinum. Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Icelandair finnur fyrir miklum áhuga Íslendinga fyrir mótinu.

„Það eru um 500 manns sem eru að koma með okkur í þessar pakkaferðir til Gautaborgar. Síðan eru margir sem kaupa miða á eigin vegum. Það er ljóst að stúkan verður blá.“ Guðni bætir við að mikill áhugi sé á flugferðum til Kaupmannahafnar í kringum leikina í riðlakeppninni í Kristianstad.

Nánar er fjallað um HM í handbolta í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið.