Yfir 40 sprotateymi skráðu sig til leiks í Superclass Startup Supernova sem fór fram í Sykursalnum í Grósku fyrir helgi.

Frumkvöðlar halda lyftukynningar um sprotafyrirtækin sín.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Markmiðið með Superclass-vinnustofunum var að undirbúa teymin til þess að sækja um í Startup Supernova-hraðalinn sem verður keyrður í fimmta sinn eftir verslunarmannahelgi.

Magnús Daði Eyjólfsson, verkefnastjóri Startup SuperNova hraðalsins í umsjón KLAK - Icelandic Startups.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Reynsluboltar úr frumkvöðlasenunni og ýmsir sérfræðingar úr atvinnulífinu komu til að miðla þekkingu sinni og hjálpa sprotateymunum að gera 18 mánaða aðgerðaráætlun fyrir verkefnin sín.

Frumkvöðlar skiptast á ráðum.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Meðal fyrirlesara voru Margrét Tryggvadóttir skemmtanastjóri og forstjóri Nova sem lagði í sínu erindi áherslu á mikilvægi þess að byggja upp sterkt samheldið teymi, Tryggvi Þorgeirsson framkvæmdastjóri og meðstofnandi Sidekick Health sem fór yfir hvernig best er að ná í viðskiptavini og skala fyrirtækið.

Frumkvöðlar halda lyftukynningar um sprotafyrirtækin sín.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Jón Ingi Benediktsson, sérfræðingur hjá Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, kenndi vinnustofu um gerð aðgerðaráætlana sprotafyrirtækja og Jason Zhangxiaoyu, landstjóri Huawei Iceland, fræddi viðstadda um tækifærin sem 5G-tæknin býður upp á en teymi sem eru að þróa lausnir tengdar 5G- og fjarskiptatækni eru sérstaklega hvött til að sækja um í Supernova-hraðalinn í ár.

Frumkvöðlar voru sáttir með vinnustofu.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Við sjáum vel þegar við keyrum vinnustofur eins og Superclass hvað það er mikil gróska í nýsköpunarsenunni á Íslandi. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá hve fjölbreyttur hópur sótti Superclass í ár en um 30% þátttakenda voru af erlendum uppruna. Við hlökkum til að lesa yfir umsóknir í hraðalinn en umsóknarfrestur er til 23. júní og teymin tíu sem fá sæti í hraðlinum verða síðan tilkynnt þann 11. júlí næstkomandi,“ segir Magnús Daði Eyjólfsson, verkefnastjóri Startup Supernova hraðalsins hjá KLAK-Icelandic Startups.

Sunna Halla Einarsdóttir, fjármálastjóri KLAK - Icelandic Startups fræðir frumkvöðla um styrki og fjármögnun.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Startup SuperNova er í umsjón KLAK - Icelandic Startups í samstarfi við Nova og Huawei með stuðningi frá Grósku hugmyndahúsi en viðskiptahraðallinn stendur yfir í sex vikur.

Jason Zhang, landstjóri hjá Huawei Iceland talar um 5G tækni
© Aðsend mynd (AÐSEND)