Sportage er einn söluhæsti bíll suður-kóreska bílaframleiðandans og því mikið undir þegar fimmta og nýjasta kynslóðin kom á markað á síðasta ári. Það verður að segjast eins og er að nýr Sportage hefur heppnast afar vel og er hér um að ræða stílhreinan og nútímalegan sportjeppa.

Miklar breytingar

Nýr Kia Sportage hefur breyst mjög mikið í útliti og hönnun miðað við forverann. Framendinn er nokkuð djarflega hannaður og þá sérstaklega LED ljósin. Stórt og kraftmikið tígrisnefs grillið að framan, sem er eins konar ættarsvipur Kia bíla, spilar vel saman við framljósin og gefur fögur fyrirheit um framsækni í hönnun. Framendinn tengist vel við flæðandi og sportlegan hliðarsvip bílsins. Kraftalegur afturhluti og rennileg afturljós fullkomna svo laglegar formlínur bílsins.

Ný kynslóð Sportage er samstarfsverkefni hönnunardeilda Kia í Suður-Kóreu, Þýskalandi, Bandaríkjunum og Kína. Það má kannski segja að bíllinn fái það besta frá þremur heimsálfum.

Nútímalegt innanrými

Innanrýmið er nútímalegt en um leið fágað og fallegt þar sem vandað er til verka og efnisval er til fyrirmyndar. Stjórnrýmið er fullkomlega aðlagað að þörfum ökumannsins. Stjórntæki eru öll innan þægilegrar seilingar sem og skjáir og stjórnrofar. Ökumaður getur því einbeitt sér fullkomlega að akstrinum.

Kia er gott í að hanna vel heppnaða stjórnklefa í bíla. Þar á bæ vita menn alveg út á hvað þetta gengur. Stór og breiður 12,3 margmiðlunarskjár gefur upplýsingar um allt sem tengist akstrinum og tengir ökumann og farþega við umheiminn í gegnum tæknivædd forrit. Viðmótið er þægilegt og auðvelt að stýra aðgerðum. Skynrædd hraðastillir er plús að mínu mati.

70 km drægni á rafmagni

Ég prófaði tengiltvinnútfærslu bílsins sem er með 265 hestafla, 1,6 lítra bensínvél og 13,8 kW rafhlöðu með allt að 70 km drægni samkvæmt WLTP staðal. Þessi vél gefur bílnum fínt afl og það er gaman að finna kraftinn frá rafmótornum. Afköstin eru góð. Togið í bílnum er 350 Nm. Hann er 8,2 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Hámarkshraðinn er 191 km/klst.

Aksturseiginleikarnir eru góðir og betri en í kynslóðinni á undan. Þýð 6 þrepa sjálfskiptingin og fjórhjóladrifið auka á akstursánægjuna. Bíllinn er mjög þéttur og lítið sem ekkert veghljóð heyrist inn í bílinn. Í Luxury útfærslunni sem reynsluekið var, er kæling í framsætum jafnt sem hiti og að sjálfsögðu leðursæti.

Meira pláss en áður

Að innan er búið að endurbæta plássið heilmikið og það byggist á nýja N3 grunninum. Auk þess að meira pláss er að innan, sérstaklega að aftan þar sem fer vel um þrjá fullorðna. Fótaplássið er nokkuð gott sem er ekki sjálfgefið. Aðgengi inn og út úr bílnum er mjög gott. Farangursrými bílsins hefur stækkað um 83 lítra frá síðustu kynslóð og er nú 591 lítrar en með því að fella aftursætin niður stækkar það í 1.780 lítra.

Kia Sportage er afar tæknivæddur bíll og býður upp á allt það nýjasta frá Kia í akstursaðstoðarkerfum og þægindum. Bíllinn er með 360°myndavél og fjarstýrðri bílastæðaaðstoð en auk þess má nefna akreinaaðstoð, athyglisvara, bakkmyndavél, blindblettsmyndavél auka fjarlægðarskynjara og árekstrarvara. Það er því hugsað vel um öryggið hjá Kia. Bíllinn er í boði í þremur útfærslum; Style, Luxury og GT-Line. Verðið á Kia Sportage er frá 6.990.777 kr. en í Luxury útfærslunni, eins og reynsluakið var, kostar bíllinn 7.690.777 kr. Dýrastur er hann í GT-Line en þá er verðið 8.190.777 kr.

Kia fimmti stærsti

Kia er orðinn fimmti stærsti bílaframleiðandi heims. Bílamerkið hefur vaxið mjög hratt á heimsvísu síðustu ár. Kia framleiðir nú meira en 2,8 milljónir bifreiða á ári í 14 verksmiðjum í átta löndum. Hér heima var Kia mest seldi fólksbíllinn á síðasta ári eftir að hafa verið í öðru sæti á eftir Toyota nokkur ár á undan. Toyota var í öðru sæti yfir mest seldu fólksbílana í fyrra.

Sjö ára ábyrgð fylgir öllum nýjum Kia bílum.