Nýr Audi Q4 e-tron kom á markað nýverið en bíllinn er nýjasta viðbótin í rafknúna sportbílalínu þýska lúxusbílaframleiðandans frá Ingolstadt. Bíllinn var tekinn í reynsluakstur á dögunum og kemur vel út í alla staði.

Audi Q4 var frumsýndur sem tilraunabíll á bílasýningunni í Genf vorið 2019. Q4 e-tron og systurbíllinn Q4 Sportback e-tron, sem er í coupe-stíl, eru smíðaðir í verksmiðju móðurfyrirtækisins Volkswagen Group í Zwickau í Þýskalandi. Þar eru einnig ID bílar VW smíðaðir.

Audi Q4 e-tron er stílhreinn og fallegur í útliti. Sportjeppinn er með áberandi grill og hjólboga sem gefa honum sterklegt útlit. Hönnunin er vel heppnuð í alla staði bæði að innan sem og utan og er það nú undantekningalaust þegar Audi á í hlut. Ættareinkennin eru augljós og það er ekki um að villast að hér er Audi á ferð.

Innanrýmið í sportjeppanum er laglegt og framsækið. Það einkennist af tækninýjungum og sportlegum og hagnýtum eiginleikum. Innanrýmið er með stafrænum stjórnklefa, 12,3 tommu snertiskjá sem snýr í átt að bílstjóranum. Nýr og betri aðgerðaskjár er í sjónlínu ökumanns og ný e-tron skipting. Raunverulegir hnappar eru enn til staðar til að stjórna loftkælingunni og er það vel að mínu mati. Vandað er til verka í öllu innandyra.

Fyrsti bíll Audi á MEB rafgrunninum

Q4 e-tron er 4590 mm langur og er hann aðeins lengri en VW ID.4. Þetta er fyrsti bíll Audi sem byggður er á MEB rafgrunninum sem er eingöngu rafknúinn hjá Volkswagen Group. ID bílar VW eru einnig smíðaðir á þessum MEB grunni.

Audi Q4 kemur í allnokkrum útfærslum og er í boði bæði fjórhjóla- og afturhjóladrifinn. Reynsluakstursbíllinn var fjórhjóladrifinn Audi Q4 45 Quattro í Advanced útfærslu.

Sportjeppinn er með 82 kW rafhlöðu og tvo rafmótora sem skila allt að 265 hestöflum. Togið er 425 Nm. Drægnin er allt að 490 km samkvæmt WLTP mælingum. Hröðun úr kyrrstöðu í hundraðið er 6,9 sekúndur sem er nokkuð gott fyrir sportjeppa.

Nánar er fjallað um Audi Q4 e-tron í sérblaðinu Bílar sem kom út með Viðskiptablaðinu.