Bílabúð Benna frumsýnir nýjan Porsche Taycan á laugardaginn í sýningarsal Porsche á Krókhálsi 9. Nýr Taycan er 100% rafknúinn, líkt og forveri hans, en kemur nú með meiri drægni og meira afli ásamt fleiri uppfærslum.

Porsche kynnti fyrst rafmagnaðan Taycan til sögunnar í lok árs 2019 og varð hann strax mjög vinsæll enda mjög aflmikill sportbíll sem var 100% rafknúinn. Hann er með meiri staðalbúnaði, ásamt nýjustu kynslóð af Porsche Driver Experience með betri skjáum og stjórnkerfi.

Meiri drægni og kraftmeiri

Nýr Taycan er með allt að 35% meiri drægni og betri hleðslugetu og með 800-volta rafkerfi getur hann hlaðið allt að 320 kW, eða 50 kW meira en áður. Búið er að bæta hleðslutímann verulega og tekur aðeins 18 mínútur að hlaða frá 10% í 80. Með nýrri 105 kWh rafhlöðu og bættri fjöðrun er Taycan nú kraftmeiri, skilvirkari og þægilegri en nokkru sinni fyrr.

Ný hönnun á fram- og afturenda, ný ljós og bjartari skjáir eru meðal nýjunga í hönnuninni sem heldur þó í hið klassíska Taycan-útlit. Þá er mun meiri staðalbúnaður en áður í bílnum en sem dæmi má nefna loftpúðafjöðrun, flottari innréttingu og Matrix-ljós.

Áður en framleiðsla hófst var prufueintökum ekið meira en 3,6 milljónir kílómetra um allan heim til að tryggja að bíllinn myndi standast ströngustu kröfur.

„Þegar rafmagnaður Taycan kom fyrst á markað árið 2019 markaði það nýtt upphaf, ekki einungis hjá Porsche heldur á rafbílamarkaðnum í heild sinni. Taycan hefur nú þegar sannað sig sem byltingarkenndur rafbíll og er þessi nýja útfærsla staðfest það enn frekar þegar kemur að drægni, afli og akstursupplifun,“ segir Benedikt Eyjólfsson, forstjóri Bílabúðar Benna.