Ólafur Tómas Guðbjartsson hefur verið áberandi í veiðiheiminum síðustu ár.

„Ég byrjaði líklega í kringum 2012 eða 2013 á að gera stuttmyndir á Youtube, sem ég kallaði Dagbók Urriða,“ segir Ólafur Tómas. „Þegar Snapchat varð vinsælt byrjaði ég að gera stutt myndskeið þar en mér fannst það alltaf frekar leiðinlegt forrit. Í kjölfarið fór ég að gera vandaðri myndbönd, sem dæmi myndband um Hraunsfjörðinn, sem varð mjög vinsælt. Eftir það höfðu ýmsir sambandi og sögðu að ég þyrfti að gera alvöru hluti og í kjölfarið fór ég að vinna sjónvarpsþættina Dagbók Urriða, sem byrjað var að sýna á Stöð 2 í vor. Á svipuðum tíma fór ég að gera hlaðvarpsþætti, þar sem ég tvinna saman veiði, ferðalög og sagnfræði.“

„Ég er enginn kung fu master í veiði"

Ólafur Tómas segist hafa fengið mjög góð viðbrögð við því sem hann hafi verið að gera undanfarin ár.

„Ég er enginn kung fu master í veiði en ég er mjög lærdómsfús og finnst gaman að gefa af mér,“ segir Ólafur Tómas, hógværðin uppmáluð. „Ef einhver telur mig eiga þátt í þeirri vakningu sem orðið hefur í silungsveiðinni síðustu ár þá er ég mjög stoltur af því,“ segir hann. „Það er heil kynslóð veiðimanna að koma upp sem eru það tæknilega færir veiðimenn að þeir ráða við hvaða veiðisvæði sem er. Margir sem stunda stangaveiði þekkja að það er stundum erfitt að fá fallega og stóra silunga í viðkvæmum ám en þessir veiðimenn, sem eru að koma upp núna, ráða vel við það. Þeir hafa stundað þennan veiðiskap frá barnsaldri og að mörgu leyti er búið að verðleggja þessa kynslóð útaf laxveiðimarkaðnum.“

Veiðin er ókeypis sálfræðingur

Spurður hvað það sé við silungsveiðina sem sé svona heillandi svarar Ólafur Tómas: „Það er svo margt, sem dæmi er tölfræðilega líklegra að fá stóran silung en stóran lax. Áskorunin að ná í silung er heillandi og líka tíminn sem þú hefur til þess. Það er miklu meiri ró yfir silungsveiði en laxveiði því veiðileyfin eru á viðráðanlegu veðri, engin svæðaskipting og þar af leiðandi minna stress því það er ekki það mikið undir fjárhagslega. Silungsveiðimenn geta leyft sér að sitja, hlusta á fuglana og sjúga þetta svolítið inn. Laxveiðin snýst mikið um laxveiðitúra en silungsveiðin er öðruvísi að því leyti að auðveldara er að skreppa dagpart. Það getur verið frábært að skjótast í silungsveiði til að tæma hugann. Stangaveiðin er besti sálfræðingur sem þú getur fengið og hann er ókeypis.

Silungsveiðin snýst um útivist, heilbrigði og náttúruna og að hugsa vel um náttúruna það er svolítið stemmningin í dag. Þessir veiðimenn sem eru að koma upp núna eru mjög meðvitaðir um þetta og finnst töff að týna upp rusl og ganga vel um eftir sig. Því miður hafa ekki allir verið þannig þenkjandi í gegnum tíðina.“

Þótti púkalegt er núna flott

Ólafur Tómas, sem er fertugur Vestfirðingur, segir að að þegar hann hafi verið ungur hafi þótt frekar púkalegt að vera í stangaveiði — hann var litinn hornauga þegar hann sleppti sveitaballi til að fara að veiða.

„Í dag er þetta allt öðruvísi. Núna þykir flott að vera í stangaveiði og mikið af mínum fylgjendum eru ungir veiðimenn. Ég er líka farinn að sjá fleiri stelpur í veiði, sem er mjög skemmtilegt. Það hafa reyndar alltaf verið konur í veiði og margar þeirra eru frábærir veiðimenn enda er þetta ekkert kynjasport. Það er mikil nýliðun í gangi í veiðinni, sem ég tengi að stórum hluta við útivistarbyltinguna undanfarin ár. Það er ekki auðvelt að byrja í laxveiði en það geta allir byrjað í silungsveiði, því veiðileyfin kosta ekki mikið. Í raun dugir Veiðikortið öllum og það kostar bara nokkra þúsundkalla. Veiðibúnaður þarf heldur ekki að vera dýr. Veiðibúðirnar eru allar að selja ódýra pakka. Allir færustu silungsveiðimennirnir, sem eru hvað mest áberandi í dag, hafa byrjað á pakkastöng og notað hana kannski í 10 til 15 ár. Í raun þarftu ekki annað en pakkastöng og Veiðikortið og þá ertu góður í mörg ár. Í Veiðikortinu eru svo mörg svæði að þú ert alltaf að finna eitthvað nýtt og leysa nýjar gátur.“

„Þá opnast alveg nýr heimur"

Á Íslandi er alveg heill hellingur af heimsklassa urriða- og bleikjuveiðiám, sem kostar mjög lítið að stunda. Það er bara spurning um að þjálfa upp tækni til að geta náð í fiskinn. Við þá sem eru að byrja í silungsveiði hef ég stundum sagt að því fyrr sem þeir tileinka sér andstreymisveiði með púpum og svoleiðis því betra. Þegar veiðimenn hafa náð tökum á þessari tækni þá opnast alveg nýr heimur. Aðgengi að upplýsingum um veiði hefur aldrei verið betra. Það er heill her af fólki sem heldur úti hlaðvarpsþáttum og birtir myndbönd úr veiði. Það hefur aldrei verið auðveldara að afla sér þekkingar á veiði en í dag, ég fullyrði það.“

Spurður hvort hann hafi góð ráð fyrir upprennandi veiðimenn, hvort hann geti til dæmis nefnt einhverjar góðar flugur svarar Ólafur Tómas: „Já, ég er með mjög einfalt ráð. Farðu í veiðibúð og segðu að þú sért byrjandi — þá færðu alla hjálp. Í veiðibúðunum vinnur fólk með mikla og góða þekkingu. Síðan mælist ég til þess að byrjendur setji markið ekki of hátt hvað varðar kostnað, heldur velji sér tiltölulega ódýrar græjur. Aðalatriðið er síðan að fara út að veiða og vera óhræddur að tala við aðra veiðimenn, flestir eru mjög viðræðugóðir og tilbúnir að gefa einhver ráð en viðveran skiptir öllu máli. Að fara aftur og aftur út, þannig læra nýir veiðimenn smám saman að verða betri. Allt sem þeir sjá og heyra við bakkann eru andlegar glósur sem nýtast seinna.“

Öll svörin eru í umhverfinu

Þegar lax gengur upp í á hættir hann að éta og ver kröftum sínum í að finna hrygningarstað. Af þessum sökum er ekki vitað nákvæmlega hvers vegna laxinn tekur flugu, þó uppi sé ýmsar kenningar um það. Silungur er aftur á móti sífellt í leit að æti og þess vegna reyna silungsveiðimenn að líkja sem mest eftir þeim flugum og ppum sem eru á matseðli silungsins hverju sinni.

„Ég, og margir sem ég þekki, byrja mína veiðitúra á að setjast og gera mig klárann við hylinn. Ég gef mér góðan tíma til að fylgjast með því öll svörin eru í umhverfinu — þau eru fljótandi í kringum mann.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Veiði, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .