Það var mikil eftirvænting í loftinu í Provence í Suður-Frakklandi á dögunum en þangað hafði bílablaðamönnum verið boðið til að reynsluaka nýjum Lexus RZ 450e sportjeppa. RZ er fyrsti Lexusrafbíllinn sem er hannaður frá grunni. Bíllinn kemur á markað hér á landi í vor.

Nýr RZ mætir flottur til leiks og bætist við sport-jeppaflóru japanska lúxusbílaframleiðandans sem er lúxusarmur Toyota. RZ er stærri en NX og aðeins minni en RX sportjepparnir. Hann er 4.805 mm langur og 1.895 mm breiður.

Hönnun Lexus RZ 450e er nútímaleg og spennandi. Nýtt snældulagað grillið sem er einkennismerki Lexus gefur fögur fyrirheit. Yfirbygging bílsins er rennileg og fáguð. Mótaðar línur eru til marks um sportlegt yfirbragð. Þar sem RZ hefur ekki bensínvél getur vélarhlíf RZ verið lægri og með minni loftinntök. Stílhrein, fjórföld LEDaðalljós falla inn í snældulaga yfirbygginguna til að mynda samræmt yfirbragð.

RZ hefur nýtt, heildrænt byggingarlag fyrir rafbíla (e-TNGA). Byggingarlagið er einstaklega sterkt að sögn Lexus en þó létt og rafhlaðan er felld inn í undirvagninn undir farþegarýminu. Þetta lækkar þyngdarmiðju bílsins og veitir þannig betra jafnvægi, stýringu og viðbragð.

Ný fjöðrun og aldrifskerfi

RZ nýtir vel möguleikana sem felast í nýrri tækni til að auka afköst og akstursánægju. Aksturinn er lipur og einkennist af öryggi, stöðugleika og þægindum. Þetta kom berlega í ljós þegar ekið var um fagrar sveitir og bæi Suður-Frakklands.

Aflið er mjög gott og bíllinn er snöggur upp. Rafhlöðurnar skila 308 hestöflum og togið er 435 Nm. Hröðunin úr kyrrstöðu í hundraðið er aðeins 5,6 sekúndur. Hámarkshraðinn er skráður 168 km/klst og honum var náð í reynsluakstrinum á hraðbraut í Provence.

Ný gerð MacPherson-gormafjöðrunar veitir mjög gott viðbragð við stýringu og jafnvægisstöng sem dregur úr óæskilegum hreyfingum skilar stöðugleika og auknum þægindum í akstri. RZ er með nýja DIRECT4- aldrifskerfið sem Lexus hefur hannað.

E-Axle samstæðan frá Lexus er notuð bæði að framan og aftan. Hún vinnur samhliða DIRECT4-að því að stilla stöðu, spyrnu og orkudreifingu bílsins, allt eftir akstursskilyrðum. Fremri mótorinn framleiðir 150 kW og sá aftari 80 kW. Drægni bílsins er 400 km á rafmagninu samkvæmt WLTP staðli.

Umfjöllunin birtist í sérblaðinu Bílar, sem kom út fimmtudaginn 16. mars 2023. Áskrifendur geta lesið hana í heild og séð fleiri myndir hér.