Samkvæmt tilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun verður öll stanga- og netaveiði á laxi og silungi á Íslandi skráð rafrænt frá og með komandi veiðisumri. Stofnunin hefur þegar í samstarfi við Fiskistofu opnað aðgang fyrir rafræna skráningu á veiði.

Með opnun rafrænnar skráningar verður hin hefðbundna skráning veiði í veiðibækur aflögð og verða veiðibækur því ekki sendar til veiðiréttarhafa í ár.

Skráning lax- og silungsveiði á Íslandi byggir á formi veiðibóka frá árinu 1946 og sýna kannanir að 98% laxveiðinnar er skráð í veiðibækur. Silungsveiði hefur ekki verið eins vel skráð eða um 40% á landsvísu. Hafrannsóknastofnunin vonar að skráning á silungsveiði muni batna með tilkomu rafrænnar skráningar.

Rafræn skráning mun leysa af hólmi innsláttarvinnu upp úr veiðibókum, auk þess sem rauntímagögn um veiði verða aðgengileg yfir veiðitímann og samantekt veiði eftir dögum og veiðistöðum á hverjum tíma.

Hægt er að skrá bæði stangaveiði og netaveiði en skráning á netaveiði verður ekki sýnileg nema viðkomandi skráningaraðila og síðan samantekin fyrir vatnakerfi.