Selá í Vopnafirði er sú íslenska laxveiði sem skilaði flestum löxum á stöng síðasta sumar eða 213. Næst á eftir kom Ytri-Rangá með 188 laxa á stöng.

Síðasta laxveiðisumar var töluvert lakara en sumarið 2022. Meðalveiðin í þeim 49 ám, sem fjallað er um hér, var 94 laxar á stöng samanborið við 113 laxa árið 2022. Á síðustu tólf árum hefur meðaltalið einungis þrisvar verið lægra en síðasta sumar en það var árin 2012, 2014 og 2019. Þegar horft er á aflahæstu árnar þá var flestum löxum landað í Ytri-Rangá síðasta sumar og þar á eftir komu Eystri-Rangá og Miðfjarðará. Er þetta þriðja árið í röð sem þessar ár skipa þrjú efstu sætin yfir heildarveiði.

Samkvæmt bráðbirgðatölum, sem Hafrannsóknarstofnun birti í haust, veiddust 32.300 laxar í íslenskum ám á árinu. Til samanburðar veiddust um 43.200 laxar sumarið 2022 og nemur samdráttur í laxveiði á milli ára því 25%.

Ársins 2023 verður því minnst í sömu andrá og ársins 2019, bæði vegna lakrar veiði en einnig vegna þess að síðasta sumar glímdu margar ár við mikið vatnsleysi. Verður sérstaklega að nefna ár á Suðvestur- og Vesturlandi í því samhengi en þar kom varla dropi úr lofti í júlí og ágúst. Í bráðabirgðatölum Hafrannsóknarstofnunar kemur raunar fram að í öllum landshlutum nema á Norðurlandi-Eystra minnkaði veiðin á milli ára.

Frá aldamótum er meðalveiðin í íslenskum ám 48.085 laxar, sem þýðir að veiðin síðasta sumar var 33% undir því meðaltali. Frá árinu 2000 hefur veiðin einungis þrisvar verið lakari en hún var í fyrra. Það var árið 2000 þegar heildarveiðin var tæplega 27.300 laxar, árið 2019 þegar um 29.200 laxar veiddust og árið 2001 þegar það veiddust ríflega 29.900 laxar.

Besta laxveiðiár Íslandssögunnar var árið 2008 þegar ríflega 84.100 laxar veiddust. Þar á eftir kemur árið 2010 með um 75.000 laxa og árið 2008 með um 74.400 laxa. Til þess að hressa veiðimenn aðeins við þá er ekkert ýkja langt síðan hér veiddust 71.700 laxar en það var árið 2015 en það er jafnframt fjórða besta laxveiðiár sögunnar.

Veiði á stöng

Lokaskýrsla Hafrannsóknastofnunar um laxveiðina sumarið 2023 kemur ekki út fyrr en í júní á næsta ári. Líkt og undanfarin ár tekur Viðskiptablaðið smá forskot á sæluna og rýnir í veiðitölur, þar sem m.a. er stuðst við vefsíðu Landssambands veiðifélaga (LV), angling.is.

Hefur Viðskiptablaðið fengið upplýsingar um lokatölur í 49 laxveiðiám og reiknað veiði á stöng en sá mælikvarði gefur nokkuð góða mynd af veiði í ám. Veiði á stöng er líka besti mælikvarðinn til þess að bera saman laxveiðiár. Fjöldi stanga í ám getur verið misjafn milli ára en einnig eru þónokkur dæmi um að veitt sé á mismargar stangir í ám yfir sumartímann. Ágætt dæmi um það eru Elliðaárnar, en þar er ýmist veitt á fjórar eða sex stangir á veiðitímabilinu. Viðskiptablaðið hefur reynt eftir bestu getu að taka tillit til þessara þátta.

Líkt og víða annars staðar var veiðin róleg í Langá á Mýrum síðasta sumar og þá er ágætt að hella upp á gott kaffi. Veiðistaðurinn er Koteyrarbrot.
Líkt og víða annars staðar var veiðin róleg í Langá á Mýrum síðasta sumar og þá er ágætt að hella upp á gott kaffi. Veiðistaðurinn er Koteyrarbrot.
© Trausti Hafliðason (VB)

Síðasta sumar veiddust ríflega 28.400 laxar í þeim 49 ám sem hér er fjallað um, sem gerir 94 laxa á stöng að meðaltali. Til samanburðar veiddust um 37.400 laxar sumarið 2022 eða 113 laxar á stöng en þá náði úttektin til 50 áa. Sjálfsagt er að beina því til leigutaka áa og veiðiréttarhafa að skila lokatölum yfir veiði til Landssambands veiðifélaga. Sumarið 2021 var veiðin keimlík því sem hún var síðasta sumar en það ár veiddust 30.400 laxar í 50 aflahæstu ánum eða 95 að meðaltali á stöng.

Viðskiptablaðið hefur tekið saman tölur yfir veiði í 50 bestu ánum frá árinu 2012 og frá þeim tíma hefur veiðin mest farið í ríflega 63.600 laxa eða 198 laxa á stöng. Þetta var sumarið 2015.

Selá í Vopnafirði á toppnum

Sú á sem stóðu upp úr þegar kemur að veiði á stöng og skipar fyrsti sæti listans í ár er Selá í Vopnafirði með 213 laxa. Er þetta í annað skiptið á fimm árum sem Selá trónir á toppi listans því það gerði hún einnig árið 2019 þegar það veiddust 256 laxar á stöng í ánni. Raunar hefur veiði í Selá verið býsna góð frá því byrjað var að taka listann saman árið 2012. Í sjö skipti á síðustu tólf árum hefur veiðin í ánni verið yfir 200 löxum á stöng, sem er frábær veiði.

Selá var eina áin sem skilaði yfir 200 löxum á stöng síðasta sumar. Hefur það einungis einu sinni gerst áður síðan byrjað var að birta þennan lista, en það var árið 2014.

Í 2. sæti listans er Ytri-Rangá með 188 laxa á stöng en áin var einnig í öðru sæti listans á síðasta ári með með 266 laxa. Í 3. sæti er svo Urriðafoss í Þjórsá með 183 laxa á stöng og Laxá á Ásum er í 4. sæti með 165 laxa á stöng. Þess má geta að Laxá á Ásum sprengdi alla skala á þessum lista árið 2015 þegar hún skilaði 898 löxum á stöng. Þess ber að geta að á þeim árum var einungis veitt á 2 stangir í ánni en frá árinu 2017 hefur verið veitt á 4 stangir í Laxá á Ásum.

Hér fyrir neðan er listi yfir árnar sem skipa sér í tíu efstu sætin. Heildarlistann er hægt að nálgast hér.

Fjallað er um laxveiði í Áramótum, sem var að koma út. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.