Heimsreisan er verkefni sem felst í því að haldið er utan um fjölda skrefa sem starfsfólk Sjóvár tekur í heilt ár. Þegar hafa verið gengin samtals 42.563.500 skref og komið við í 48 höfuðborgum en í kringum 170 manns taka þátt í verkefninu. Heimsreisan á að stuðla að aukinni hreyfingu og enn betri starfsanda.

Ætlunin að hópurinn nái að safna skrefum sem jafngildi vegalengdinni frá Íslandi til Íslands, með viðkomu í öllum höfuðborgum heimsins.

„Við fengum nokkur það verkefni að þróa hugmynd sem myndi gera góðan starfsanda enn betri. Okkur datt ýmislegt í hug en Heimsreisan varð á endanum fyrir valinu,“ segir Hilmar Þór Sigurjónsson, tjónamatsmaður. Verkefnið hefur gengið vonum framar og heildarskrefafjöldinn eykst með hverri viku.

„Þátttakan hefur verið miklu betri en við áttum von á,“ segir Ingibjörg Garðarsdóttir Briem, lögfræðingur. „Margir eru til dæmis farnir að fara í göngutúra í hádeginu og sumir ganga jafnvel í hringi heima hjá sér í lok dags til að ná skrefamarkmiði sínu, frekar en að setjast í sófann.“ Hópurinn hafði ýmsar hugmyndir um hvernig mætti hvetja starfsfólkið áfram á leiðinni en þær hafa reynst óþarfar.

„Við ætluðum sem dæmi að hafa „lyftulausan mánuð“ þar sem fólk ætti bara að ganga á milli hæða. Það gerðist síðan bara sjálfkrafa um leið og verkefnið hófst. Fólk notar lyftuna miklu minna en áður og núna hittir maður bara alla á stigaganginum,“ segir Ingibjörg. „Svo kemur fólk til dæmis til baka eftir að hafa farið á rjúpu og segir „jæja, þetta voru 30 þúsund skref!“ svo það er mikið pælt í þessu.“

Í lok hverrar viku fær starfsfólkið síðan að vita hvar það er statt í heiminum og er hádegismaturinn í mötuneytinu þá í anda þess lands. Ætlunin var að ná markmiðinu fyrir 1. október 2018, ári frá því að lagt var af stað. Hópurinn sér þó fram á að það þurfi jafnvel að lengja leiðina. „Við eigum örugglega eftir að þurfa að bæta við einhverjum krók á endanum því við erum að fara svo hratt yfir að með þessu áframhaldi verðum við komin aftur til Íslands áður en að ár verður liðið,“ segir Hilmar Þór.